Bað fórnarlömbin afsökunar

AFP

Kaþólska kirkjan í Þýskalandi bað fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis af hálfu kirkjunnar þjóna opinberlega afsökunar í dag. 

Formaður biskuparáðs kaþólsku kirkjunnar í Þýskalandi, Reinhard Marx kardínáli, segir að draga eigi ofbeldismennina fyrir rétt og þeir látnir svara til saka. Kynferðislegt ofbeldi sé glæpur og refsa eigi þeim sem fremji slíka glæpi. Hann biðji fórnarlömb þeirra afsökunar fyrir hönd kirkjunnar. Fyrir öll þau mistök sem hafi verið gerð og sársauka.

Reinhard Marx, erkibiskup í München og kardináli, baðst í morgun …
Reinhard Marx, erkibiskup í München og kardináli, baðst í morgun afsökunar fyrir hönd kirkjunnar. AFP

Í morgun var birt skýrsla sem sýnir svart á hvítu að yfir 3.600 manns urðu fyrir kynferðislegu ofbeldi og misnotkun af hálfu 1.670 kirkjunnar þjóna hjá kaþólsku kirkjunni í Þýskalandi á 68 ára tímabili. Telja höfundar skýrslunnar að það sé aðeins toppurinn á ísjakanum. Misnotkunin innan kaþólsku kirkjunnar í Þýskalandi er ein sú alvarlegasta sem upp hefur komið í Evrópu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert