Dæmdur fyrir föðurmorð

AFP

Fyrrverandi milljarðamæringur var í gær dæmdur fyrir föðurmorð í Ontario í Kanada en áður var talið að faðir hans hefði framið sjálfsvíg. Maðurinn, Dellen Millard, afplánar nú þegar tvöfaldan lífstíðardóm fyrir tvö önnur morð. 

Dellen Millard brast í grát þegar dómarinn dæmdi hann sekan um að hafa myrt föður sinn, Wayne Millard. Árið 2016 var Dellen Millard dæmdur fyrir morð á rúmlega þrítugum manni, Tim Bosma, sem hafði ætlað að selja honum bíl. Ári síðar var hann dæmdur fyrir morð á fyrrverandi unnustu sinni, Lauru Babcock. Hvorugt líkið hefur fundist.

Dellen Millard erfði auð fjölskyldunnar eftir að faðir hans fannst látinn árið 2012. Var talið að Wayne Millard hefði skotið sig sjálfur í höfuðið en í gær dæmdi Hæstiréttur Ontario Dellen Millard sekan um morðið.

Frétt BBC

Dellen Millard sagði lögreglu á þeim tíma að faðir hans hefði verið þunglyndur og glímt við áfengissýki. Starfsfólk flugfélags í eigu fjölskyldunnar, MillardAir, hafði hins vegar aðra sögu að segja. Samband þeirra feðga hefði verið afar stirt og þeir ítrekað tekist á.

Sex mánuðum eftir andlát Wayne Millard hvarf Tim Bosma eftir að hafa auglýst bílinn til sölu á netinu í maí 2013. Dellen Millard svaraði auglýsingunni og kom ásamt vini sínum, Mark Smich, á heimili Bosma í Hamilton í Ontario til þess að reynsluaka bílnum. Bosma fór með félögunum í reynsluaksturinn og hefur ekkert spurst til hans síðan. 

Jeppi Bosma fannst síðar á landareign í eigu móður Millards. Í kjölfarið voru þeir Millard og Smich handteknir grunaðir um að hafa myrt Bosma. Þrátt fyrir að búið væri að hreinsa allt innan úr jeppanum fundust merki um að skotið hefði verið úr byssu í bílnum, auk þess fannst  blóð úr Bosma.

Um svipað leyti hóf lögregla rannsókn á fortíð Millards, andláti föður hans 2012 og hvarfi fyrrverandi unnustu hans, Lauru Babcock, sama ár en hún hvarf þremur mánuðum áður en Millard fannst látinn.

Við rannóknina  kom í ljós að Millard hafði haldið sambandinu við Babcock áfram á sama tíma og hann átti aðra kærustu. Sú hafði verið ósátt við ástarþríhyrninginn og Millard hét henni að losa þau við Babcock. Gerði hann það í orðsins fyllstu merkingu því lík hennar hefur aldrei aldrei fundust, ekkert frekar en Babcocks.

Millard og Smich voru fundnir sekir um morðið á Bosma árið 2016 og voru þeir dæmdir árið 2017 fyrir að hafa myrt Babcock.

Smich var ekki ákærður fyrir aðild að morðinu á Wayne Millard en Dellen Millard hélt því fram að hann hefði verið heima hjá Smich nóttina sem faðir hans lést. Gögn úr síma hans sýndu aftur á móti að hann fór heim til föður síns um nóttina. Jafnframt voru lífsýni úr honum á byssunni sem fannst við hlið líksins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert