Varar við vaxandi óreiðu í heiminum

Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, ávarpaði 73. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna …
Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, ávarpaði 73. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York í morgun. AFP

Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, varar við vaxandi óreiðu og uppnámi í alþjóðasamskiptum og að alþjóðaregluverkið sé við það að liðast í sundur. Þetta kom meðal annars fram í opnunarávarpi hans á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem var sett í New York í morgun.

Guterres segir samskipti á alþjóðlegum vettvangi sífellt harðna og að traust á alþjóðakerfinu fari minnkandi. „Heimsskipulagið í dag einkennist af óreiðu og valdasamskipti verða óskýrari,“ sagði Guterres þegar hann ávarpaði leiðtoga og fulltrúa aðildarríkjanna 193 rétt áður en Donald Trump Bandaríkjaforseti steig í pontu.

Guterres beindi gagnrýni sinni ekki að ákveðnu ríki eða ríkjum en ótti ríkir meðal sendiherra Sameinuðu þjóðanna um að verið sé að skipta heiminum upp í nokkra hluta eftir áhrifum og að í vændum sé barátta um valdskiptingu í alþjóðasamfélaginu.

Ákvörðun Trumps að draga Bandaríkin út úr alþjóðlegum sáttmálum á borð við kjarnorkusamkomulagið við Íran og Parísarsamkomulagið ýtir undir áhyggjur sendiherra Sameinuðu þjóðanna um óreiðuástand í alþjóðasamskiptum.

„Breytingar á valdajafnvægi heimsins eykur líkurnar á árekstrum,“ sagði Guterres, sem greindi einnig frá áhyggjum sínum þess efnis að lítið færi fyrir mannúðarsjónarmiðum og að valdboðsstefna væri að ryðja sér til rúms.

Hassan Rouhani, forseti Írans, Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Donald Trump …
Hassan Rouhani, forseti Írans, Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Donald Trump Bandaríkjaforseti munu allir ávarpa allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í dag. AFP

Um 130 leiðtogar heimsins eru saman komnir á allsherjarþinginu. Þeirra á meðal eru Trump og Hassan Rouhani, forseti Írans. Þá mun Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sem hefur gjarnan talað fyrir fjölþjóðastefnu (e. multilateralism), taka til máls á þinginu í dag.

Rouhani hef­ur gagn­rýnt Banda­ríkja­menn í kjöl­far skotárás­ar á her­sýn­ingu í ír­önsku borg­inni Ahvaz á laugardag, sem kostaði 25 manns lífið, þar á meðal fjög­urra ára stúlku. Yf­ir­völd í Íran telja að ríki við Persa­flóa, sem séu studd af Banda­ríkja­mönn­um, beri ábyrgð á árás­inni. Til stóð að Rouhani og Trump myndu funda á meðan þeir væru báðir staddir í New York, en Trump hefur nú útilokað þann fund í færslu á Twitter. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert