Fá helming fjárins

Formaður Rassemblement National, Marine le Pen.
Formaður Rassemblement National, Marine le Pen. AFP

Þjóðernisflokkur Marine Le Pen, Rassemblement national (RN) hefur fengið helming þess fjár, alls eina milljón evra, til baka sem rann­sókn­ar­dóm­ar­ar fóru fram á að yrðu hald­lagðar í tengsl­um við rann­sókn á hvort flokk­ur­inn hafi dregið að sér fé úr sjóðum Evr­ópuþings­ins. 

Um er að ræða fjármuni sem flokkurinn, sem áður hét Front National, fékk úthlutað úr opinberum sjóðum.

Frétt Le Monde

Áfrýjunardómstóll í París úrskurðaði í dag að flokkurinn ætti rétt á að fá féð í sína vörslu en rannsóknin beinst einkum að formanni flokksins, Marine Le Pen, sem er þingmaður á Evrópuþinginu. Hún mótmælti harðlega þegar dómari ákvað að frysta greiðslur til flokksins 28. júní og sagði að þetta gæti markað endalok flokksins.

Lögmaður hennar, Rodolphe Bosselut, segir ákvörðunina fyrsta sigurinn í málinu og að hann muni áfrýja að nýju til þess að tryggja flokknum alla peningana.

Le Pen ásamt 11 öðrum flokks­mönn­um er sökuð um að hafa notað fé sem er eyrna­merkt aðstoðarfólki á Evr­ópuþing­inu til að greiða starfs­fólki flokks­ins í Frakklandi. Fjár­drátt­ur­inn á að hafa staðið yfir árum sam­an eða allt frá ár­inu 2009.

Alls fékk flokk­ur­inn 4,5 millj­ón­ir evra greiddar út í ár. RN hefur átt í fjár­hagserfiðleik­um. Árið 2014 þurfti flokk­ur­inn að taka níu millj­óna evra lán hjá rúss­nesk­um banka þar sem illa gekk að sann­færa franska banka um að lána flokkn­um. Meðal ann­ars neituðu bank­ar eins og Societe Gener­ale og HSBC að veita flokkn­um fyr­ir­greiðslu í fyrra. 

Evr­ópuþingið fer fram á að flokk­ur­inn end­ur­greiði sjö millj­ón­ir evra sem Le Pen og fleiri þing­menn Þjóðfylk­ing­ar­inn­ar sviku út úr Evr­ópuþing­inu. Þeirra á meðal er faðir henn­ar,  Jean-Marie Le Pen, stofn­andi flokks­ins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert