Lífstíðardómur yfir Madsen staðfestur

Yfirréttur í Kaupmannahöfn staðfesti í dag dóm héraðsdóms um að Peter Madsen sæti lífstíðarfangelsi fyrir morðið á sænsku blaðakonunni Kim Wall. Lífstíðardómur í Danmörku er að öllu jöfnu 16 ár. 

Í dómsorðum kemur fram að Madsen er fundinn sekur um sérlega alvarleg kynferðisbrot gegn Wall og að hafa skipulagt morðið í þaula ásamt því að fara illa með líkamsleifar hennar. 

Madsen áfrýjaði niður­stöðu héraðsdóms sem kveðinn var upp 25. apríl. Hann held­ur því fram að hún hafi lát­ist af slys­för­um en viður­kenn­ir að hafa sund­urlimað líkið og hent lík­ams­hlut­un­um í sjó­inn í ág­úst í fyrra.

Dómshald fór fram í máli Madsen í yfirrétti Kaupmannahafnar í dag áður en dómur var kveðinn upp. Madsen átti lokaorðið áður en hlé var gert á meðan dómarar gerðu upp hug sinn. „Ég er miður mín yfir því sem hefur gerst og finn til með ættingjum Kim,“ sagði Madsen.

Kristian Kirk saksóknari fór fram í lokaávarpi sínu að farið væri fram á lífstíðardóm þar sem Madsen væri brenglaður, úthugsaður og stórhættulegur kynferðisafbrotamaður. Þá væri mikil hætta á því að hann fremdi svipaðan glæp aftur. 

Foreldrar Kim og kærasti voru viðstödd dómsuppkvaðninguna í dag, ásamt fjölda fjölmiðlafólks.

Samkvæmt úrskurði yfirréttar er Madsen gert að greiða foreldrum Wall 328.246,14 danskar krónur í miskabætur, eða sem nemur rúmum 5,6 milljónum íslenskra króna. Þá er hann dæmdur til að greiða kærasta Wall 150.000 danskar krónur, eða rúmar 2,5 milljónir íslenskra króna. 

Fylgst var með dómsuppkvaðningunni í beinni lýsingu á vef danska ríkisútvarpsins

Yfirréttur í Kaupmannahöfn hefur staðfest lífstíðardóm héraðsdóms yfir danska uppfinningamanninum …
Yfirréttur í Kaupmannahöfn hefur staðfest lífstíðardóm héraðsdóms yfir danska uppfinningamanninum Peter Madsen. Hann er fundinn sekur um að hafa orðið sænsku blaðakonunni Kim Wall að bana. AFP
mbl.is