Samþykktu eftirlaunafrumvarp

AFP

Neðri deild rússneska þingsins, Dúman, hefur samþykkt umdeilt eftirlaunafrumvarp en forseti Rússlands, Vladimír Pútín, hefur látið gera breytingar á frumvarpinu til þess að lægja öldurnar í landinu. Samkvæmt frumvarpinu á að hækka eftirlaunaaldur og hafa landsmenn verið afar ósáttir við það.

Frumvarpið á eftir að fara fyrir þriðju umræðu en samkvæmt frumvarpinu munu karlar fara á eftirlaun 65 ára í stað 60 ára. Tugþúsundir hafa tekið þátt í mótmælum undanfarið vegna þessa umdeilda ákvæðis. 

Alls greiddu 326 atkvæði með frumvarpinu í morgun, 59 voru á móti og einn sat hjá. Fyrr í morgun hafði meirihluti Dúmunnar samþykkt að hækka eftirlaunaaldur kvenna um fimm ár, í 60 ára, en áður stóð til að hækka hann um átta ár, í 63 ár. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert