Vísa á bug skýrslu um tilræðismann

Sergei Skripal.
Sergei Skripal. AFP

Rússnesk stjórnvöld hafa vísað á bug skýrslu virtra rannsóknarblaðamanna þar sem kemur fram að annar þeirra sem eru grunaðir um að hafa eitrað fyrir njósnaranum fyrrverandi Sergei Skripal hafi verið margheiðraður ofursti í leyniþjónustu rússneska herráðsins.

Skýrslan var unnin af breska rannsóknarhópnum Bellingcat.

Talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins, Maria Zakharova, sagði að skýslan hafi verið tímasett þannig að hún birtist um svipað leyti og Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, átti að ávarpa öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í gær.

„Það eru engar sannanir fyrir hendi – hvers vegna eru þeir þá að halda áfram með þessa upplýsingaherferð sem er ætlað að dreifa athyglinni frá aðalspurningunni: Hvað gerðist í Salisbury,“ skrifaði Zakharova á Facebook.

„Þeirri spurningu er enn ósvarað: munu einhverjar sannanir koma fram um að einhver hafi átt þátt í eitruninni í Salisbury, eins og stjórnvöld í London kalla þennan atburð?“

Theresa May gagnrýndi rússnesk stjórnvöld í ræðu sinni í gær fyrir að hafa eitrað fyrir Skripal og dóttur hans Yulia með taugaeitrinu Novichok, sem var búið til á tímum gömlu Sovétríkjanna, í mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert