Kröftug flóðbylgja í kjölfar jarðskjálfta

Fjöldi húsa hrundi í skjálftanum í morgun.
Fjöldi húsa hrundi í skjálftanum í morgun. AFP

Kröftug flóðbylgja skall á Sulawesi-eyju í Indónesíu í kjölfar jarðskjálfta að stærðinni 7,5 sem reið yfir Indónesíu klukkan 10:02 að ís­lensk­um tíma.

Öldurnar náðu allt að tveggja metra hæð þegar flóðbylgjan náði landi við bæinn Palu á Sulawesi-eyju. Það gerðist skömmu eftir að yfirvöld höfðu aflétt flóðbylgjuviðvörun.

Upp­tök skjálft­ans voru á um sex kíló­metra dýpi í Central Sulawesi-héraðinu sem er á Sulawesi-eyju. Al­manna­varn­ir lands­ins sendu út viðvör­un um mögu­lega flóðbylgju stuttu eft­ir að skjálft­inn reið yfir, en drógu viðvör­un­ina til baka nokkru seinna.

Á myndskeiðum á samfélagsmiðlum má sjá fólk öskra og flýja. Greint hefur verið frá því að fimm hafi látist en ekki er ljóst hvort það var vegna jarðskjálftans eða flóðbylgjunnar.

Mörg hundruð létust í hrinu jarðskjálfta við eyjuna Lombok í Indónesíu í síðasta mánuði. 460 manns létust 5. ágúst þegar stærsti skjálftinn reið yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert