Staðfest að 832 hafi látist í hamförum

Rústir af 10 hæða hóteli í Palu sem hrundi í …
Rústir af 10 hæða hóteli í Palu sem hrundi í skjálftanum. Staðfest er að 832 hafi látist í hamförunum, en óttast er að talan muni hækka mikið á næstu dögum. AFP

Yfirvöld í Indónesíu hafa staðfest að 832 séu látnir eftir að jarðskjálfti upp á 7,5 stig reið yfir eyjuna Sulawesi og flóðbylgja, sem náði allt að sex metra hæð, fylgdi í kjölfarið. Óttast er að mun fleiri hafi látist, en enn hefur ekki tekist að koma stórvirkum vinnuvélum á svæðið til að aðstoða við að hreinsa rústirnar þar sem talið er að mikill fjöldi sé fastur undir.

Á vef BBC kemur fram að tugir séu fastir undir rústum hótels og verslunarmiðstöðvar í borginni Palu. Beðið er eftir stórvirkum vinnuvélum þar sem fjölmargir eftirskjálftar hafa torveldað leitar- og björgunarstarf.

Björgunarfólk reynir að finna fólk í rústunum, en eftirskjálftar hafa …
Björgunarfólk reynir að finna fólk í rústunum, en eftirskjálftar hafa gert því erfitt um vik. AFP

Hefur björgunarfólk getað komið vatni og mat til sumra þeirra sem eru fastir undir byggingunum, en þá hafa líka heyrst köll frá öðrum sem ekki hefur náðst til.

Eyðilegging innviða eins og flugvalla og vega auk þess sem fjarskipti liggja víða niðri hefur gert að verkum að erfitt er að koma aðstoð á þau svæði sem verst urðu úti í skjálftanum.

Yfirvöld ætla að grafa lík 300 manns í fjöldagröf til …
Yfirvöld ætla að grafa lík 300 manns í fjöldagröf til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma. AFP

Þar sem spítalar urðu einnig illa úti í skjálftanum hafa sjúklingar verið meðhöndlaðir undir berum himni, en auk þess hefur herinn sett upp bráðabirgðasjúkrahús.

Borgin Palu er stærsta borg svæðisins, en lítið hefur heyrst frá öðrum borgum og bæjum sem urðu verst úti. Aðstoðarforseti Indónesíu, Jusuf Kalla, hefur sagt að mannfall gæti verið talið í þúsundum.

Fjölskyldur hafa reynt að bera kennsl á hina látnu.
Fjölskyldur hafa reynt að bera kennsl á hina látnu. AFP

Yfirvöld undirbúa nú að setja hina látnu í fjöldagrafir til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma. Sögðu yfirvöld í dag að verið væri að undirbúa gröf fyrir 300 lík.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert