Hinir látnu fluttir í fjöldagröf

Sjálfboðaliðar eru byrjaðir að flytja lík í fjöldagröf.
Sjálfboðaliðar eru byrjaðir að flytja lík í fjöldagröf. AFP

Indónesískir sjálfboðaliðar eru byrjaðir að setja þá sem hafa fundist látnir eftir jarðskjálftann í landinu ofan í fjöldagröf þar sem yfir eitt þúsund lík komast fyrir.

Fjöldagröfin er staðsett í Poboya, á hæðinni yfir ofan borgina Palu á eyjunni Sulawesi, þar sem um 1.300 lík eiga að komast fyrir.

Að minnsta kosti 844 manneskjur hafa látist eftir jarðskjálftann og um 48 þúsund manns hafa misst heimili sín eða þurft að yfirgefa þau.

Frá Palu á Indónesíu.
Frá Palu á Indónesíu. AFP

Fjórir dagar eru síðan skjálftinn, upp á 7,5 stig, gekk yfir Sulawesi. Flóðbylgja sem náði allt að sex metra hæð fylgdi í kjölfarið. Stutt er síðan samband náðist við afskekkt svæði og er ástandið víða erfitt vegna lyfjaskorts, auk þess sem skortur á stórum vinnuvélum gerir björgunarmönnum erfitt um vik er þeir reyna að bjarga fórnarlömbum sem hrópa á hjálp úr húsarústum.

Fólk bíður í biðröð eftir bensíni.
Fólk bíður í biðröð eftir bensíni. AFP

Joko Widodo, forseti Indónesíu, hefur brugðist við með því að opna dyrnar fyrir alþjóðleg hjálparsamtök.

Óttast er að fleiri muni finnast látnir á næstu dögum en lýst hefur verið yfir 14 daga neyðarástandi í landinu.

AFP

Í borginni Palu á Sulawesi er beðið eftir stórum vinnuvélum til að leita í rústum hótels og verslunarmiðstöðvar, þar sem óttast er að fjöldi fólks hafi grafist undir.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert