Mengað heimabrugg fellir fjölda Írana

Í heimabruggið er stundum notaður tréspíri sem getur dregið fólk …
Í heimabruggið er stundum notaður tréspíri sem getur dregið fólk til dauða. AFP

460 Íranar hið minnsta hafa verið fluttir á sjúkrahús og 42 látist á undanförnum þremur vikum, eftir að hafa innbyrt mengað heimabrugg. 16 einstaklingar hafa misst sjónina og 170 hafa þurft að gangast undir himnuskiljun í kjölfar neyslunnar. Yngsti einstaklingurinn er 19 ára gömul kona. BBC greinir frá.

Áfengisdrykkja hefur verið bönnuð í Íran frá árinu 1979 en heimabrugg er víða í umferð. Í staðinn fyrir etanól er þó stundum notaður tréspíri í bruggið. Í síðustu viku handtók lögreglan í borginni Bandar Abbas par fyrir að brugga í heimahúsi.

Það er ekki óalgengt að mengað heimabrugg valdi veikindum eða dauðsföllum í Íran, en það sem er óvenjulegt nú er hve fjöldi dauðsfalla er mikill á skömmum tíma og þau virðast ekki bundin við eitt ákveðið svæði.

Talið er að fall íranska gjaldmiðilsins gagnvart dollaranum kunni að hafa sitt að segja, því fólk leitist nú frekar eftir því að kaupa ódýrt heimabrugg heldur en dýrara áfengi sem smyglað hefur verið til landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert