Trump fagnar „frábærum samningi“

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti fagnaði í dag nýjum fríverslunarsamningi við Kanada og Mexíkó, sem kemur í stað NAFTA, sem „frábærum samningi“ fyrir löndin þrjú. Trump hefur lengi gagnrýnt NAFTA og jafnvel hótað að segja upp viðskiptasamningnum.

Trump sagði enn fremur nýja samninginn, sem gengur undir nafninu United States-Mexico-Canada Agreement (USMCA) og var landað á elleftu stundu í gærkvöldi, leysa ýmis af þeim vandamálum sem NAFTA hefði skapað að hans mati. Eitt af stefnumálum forsetans í aðdraganda forsetakosninganna 2016 var að semja um NAFTA upp á nýtt.

Forsetinn sagði USMCA fela í sér betra markaðsaðgengi fyrir bandaríska bændur og aðra framleiðendur og draga frekar úr viðskiptahindrunum en samkvæmt NAFTA. Samningurinn gerði ríkin þrjú enn fremur samheppnishæfari gagnvart öðrum ríkjum í heiminum.

Bandarísk stjórnvöld höfðu áður samið við Mexíkó í ágúst og Kanada hefur nú verið bætt við þann samning. Fram kemur í sameiginlegri yfirlýsingu bandarískra og kanadískra stjórnvalda að samningurinn þýddi frjálsari markaði, sanngjarnari viðskipti og aukinn hagvöxt.

Þá segir í frétt AFP að Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hafi ekki viljað að það liti út fyrir að hann hefði látið undan kröfum Trumps, en þingkosningar eru í landinu á næsta ári. Hins vegar hafi Kanada átt á hættu að standa utan við samning Bandaríkjanna og Mexíkó.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert