Óttast að þúsundir hafi látist

Óttast er að tala látinna skipti þúsundum eftir náttúruhamfarirnar á indónesísku eyjunni Sulawesi. Í dag fundust lík 34 námsmanna í biblíuskóla í Sigi Biromau. Þeir eru hluti 86 námsmanna við skólann sem ekkert hafði spurst til síðan á föstudag. Enn er ekki vitað um afdrif 52 nemenda. 

Stjórnvöld á Indónesíu greindu frá því í dag að staðfest sé að 1.234 hafi látist í hamförunum á föstudag en í gær var staðfestur fjöldi 844. 

Örvæntingin eykst dag frá degi á eyjunni, ekki síst í borginni Palu þar sem 350 þúsund manns búa. Gríðarleg eyðilegging blasir alls staðar við, húsarústir eftir jarðskjálftann sem mældist 7,5 stig og flóðbylgjuna sem fylgdi í kjölfarið. 

En ekki eru allar fréttir slæmar fréttir. Azwan hafði leitað eiginkonu sinnar, Dewi, í líkhúsum borgarinnar í tvo daga en á sunnudag gerðist kraftaverk að hans sögn, hún kom illa til reika að heimili þeirra.

Hún hafði verið að skrá gesti á hátíð á hóteli við ströndina þegar flóðbylgjan reið yfir í kjölfar skjálftans. Alda skall á henni og missti hún meðvitund um tíma en þegar hún rankaði við sér lá hún á götunni fyrir framan hótelið. „Ég man að ég heyrði fólk kalla, flóðbylgja, flóðbylgja,“ segir hún í samtali við fréttamann AFP. 

Dewi segir að föt hennar hafi verið rifin og tætt og hún ráfað um eftir götum borgarinnar í nágrenninu. Þar komst hún í neyðarskýli og dvaldi þar um nóttina. Ekkert vatn eða matur var í boði og fólk beðið um að halda kyrru fyrir enda eftirskjálftar tíðir. 

Í hinum enda borgarinnar var eiginmaður hennar, Azwan, að leita konu sinnar ásamt ungri dóttur þeirra hjóna. Hann fór á milli heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa og leitaði hennar. Hvort sem það var meðal sjúklinga eða líkpoka. Án árangurs. Hann leitaði til lögreglu og líkhúsa. Hann segir að það hafi verið skelfilegt að leita því líkin hrúguðust upp. En á sunnudeginum komst Dewi heim. Hún þakkar fyrir að vera á lífi en andlega hliðin sé afar brothætt enda hafa þau líkt og svo margir aðrir ekki fundið alla ástvini sína. Til að mynda hefur ekkert frést af systur Dewi.

Samkvæmt upplýsingum frá skrif­stofu mannúðar­mála hjá Sam­einuðu þjóðunum (OCHA) eru 191 þúsund íbúar eyjunnar í bráðri þörf fyrir aðstoð, þar á meðal 46 þúsund börn og 14 þúsund eldri borgarar.

Indónesíska lögreglan greindi frá því í dag að tugir hefðu verið handteknir fyrir gripdeildir á Sulawesi undanfarna daga. Fólk sem lifði af hamfarirnar hefur ruplað og rænt verslanir enda voru allar verslanir lokaðar um helgina og fátt annað í boði fyrir fólk sem reyndi að ná sér í mat og drykk.

„Á degi eitt og tvö voru nánast engar verslanir opnar. Fólk var svangt. Það var fólk í sárri neyð og ekkert vandamál með það,“ segir aðstoðarríkislögreglustjóri Indónesíu, Ari Dono Sukmanto.

„En á þriðja degi fóru matarvistir að berst og þá þurfti bara að dreifa þeim en samt hélt fólk áfram að rupla og ræna, segir hann og að slíkt verði ekki liðið en hingað til hefur lögreglan í Palu staðið hjá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert