Vill leiða framkvæmdastjórn ESB

Alexander Stubb sækist eftir formennsku í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
Alexander Stubb sækist eftir formennsku í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. AFP

Alexander Stubb, fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands, hefur lýst yfir framboði sínu til oddvita EPP, bandalags mið- og hægriflokka, í Evrópuþingkosningunum sem fram fara næsta vor en í því felst að vera frambjóðandi bandalagsins til embættis forseta framkvæmdastjórnar ESB.

Stubb er varaforseti Evrópska fjárfestingarbankans, en hann gegndi áður embætti utanríkisráðherra Finnlands árin 2011-2014 og var forsætisráðherra til skamms tíma frá 2014-2015. Þá var hann um tíma þingmaður á Evrópuþinginu. Nái hann kjöri verður hann fyrsti Norðurlandabúinn til að gegna embætti forseta framkvæmdastjórnarinnar sem talið er, ásamt forseta leiðtogaráðsins, það valdamesta innan Evrópusambandsins, að þjóðarleiðtogum frátöldum.

Margir nefndir, fáir í framboði

Stubb er annar liðsmaður EPP til að lýsa yfir framboði en áður hefur Manfred Weber, hinn þýski leiðtogi bandalagsins, lýst yfir framboði og nýtur hann stuðnings Angelu Merkel Þýskalandskanslara. Þá hefur nafn Michel Barnier, aðalsamningamanns ESB í viðræðunum um útgöngu Breta úr sambandinu, verið nefnt í því skyni.

Úr flokki Sósíaldemókrata (S&D) hefur Maros Sefkovic, orkumálastjóri ESB, lýst yfir framboði í oddvitasæti flokksins, en Helle Thorning-Schmidt, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, hefur einnig þótt líklegur frambjóðandi, annaðhvort í embætti forseta framkvæmdastjórnarinnar eða forseta leiðtogaráðsins.

Helle Thorning-Schmidt hefur gert sig líklega til framboðs.
Helle Thorning-Schmidt hefur gert sig líklega til framboðs. BAX LINDHARDT

Formlega er skipan forseta framkvæmdastjórnarinnar í höndum leiðtogaráðs Evrópusambandsins, þar sem forsetar eða forsætisráðherrar aðildarríkjanna sitja, en Evrópuþingið þarf síðan að kjósa um hinn tilnefnda og ber leiðtogaráðinu, samkvæmt Lissabon-sáttmálanum, að hafa niðurstöður þingkosninganna í huga.

Tilnefna flokkabandalögin á Evrópuþinginu því hvert sinn oddvita (spitzenkandidat) í embætti forseta framkvæmdastjórnarinnar fyrir þingkosningarnar.

Jean-Claude Juncker, sitjandi forseti framkvæmdastjórnarinnar, tók við embætti 1. nóvember 2014 eftir Evrópuþingkosningar sama ár, en hann var oddviti sama bandalags, EPP, sem fékk mest fylgi í kosningunum. Juncker, sem er 63 ára, hefur gefið það út að hann hyggist hætta að kjörtímabilinu loknu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert