„Ég horfði á nágranna mína grafna lifandi“

Vegurinn til Petobo er gjöreyðilagður. Íbúar hafa lýst því hvernig …
Vegurinn til Petobo er gjöreyðilagður. Íbúar hafa lýst því hvernig hann gekk fyrst í öldulaga bylgjum og sveiflaðist því næst til hliðanna eins og snákur. AFP

„Þetta var eins og í myndinni 2012: Dómsdagur,“ segir Joshua Michael, 24 ára íbúi þorpsins Petobo á Sulawesi-eyju í Indónesíu. Hann á erfitt með að finna réttu orðin til að lýsa eyðileggingu þorpsins í kjölfar hamfara síðustu viku, en óttast er að þúsundir séu grafnar í aur sem hvelfdist yfir þorpið í jarðskjálftanum á föstudag.

„Það var eins og húsin soguðust niður í jörðina og svo kom aurinn og lokaði á þau,“ hefur Guardian eftir Michael. „Ég horfði á nágranna mína grafna lifandi.“ Hann stendur við rústir heimilis síns. Þakið liggur flatt á jörðinni, fatnaður liggur um allt eins og hráviði og hann reynir að benda á staðinn þar sem hús nágranna hans voru áður.

Þegar jarðskjálft­inn sem mæld­ist 7,5 stig og sex metra há flóðbylgjan lentu á borginni Palu, þá gereyðilögðu náttúruhamfarirnar gott sem Petobo.

Jarðskjálftinn gleypti heilu húsin er hann fór í gegnum Petobo.
Jarðskjálftinn gleypti heilu húsin er hann fór í gegnum Petobo. AFP

Gleypti heilu húsin

Íbúar hafa lýst því hvernig vegurinn gekk fyrst í öldulaga bylgjum og sveiflaðist því næst til hliðanna eins og snákur.

Öflugur skjálftinn reif upp veginn og á honum mynduðust stórar jarðsprungur. Á sumum stöðum munar nú fleiri metrum í hæð vegarins. Þá gleypti skjálftinn heilu húsin er hann fór í gegnum þorpið.

Guardian segir vökvamyndun ástæðu þess sem gerðist í Petobo. Bandaríska jarðskjálftamiðstöðin segir um að ræða eins konar bráðnun jarðar. Slíkt geti átt sér stað þegar jarðvegurinn er gegnsósa af vatni og verður um leið fyrir jarðskjálfta. Þá geti hann hagað sér líkt og vökvi.

„Það er ekkert vit í þessu, en þetta gerðist samt í raun og veru,“ segir Dicky Christian, einn íbúanna.

Michael var á heimleið á mótorhjóli sínu, á leið í gegnum hrísgrjónaakrana þegar skjálftinn reið yfir. Hann segir engin orð geta lýst þeirri dómsdagssenu sem þá átti sér stað. Fólk hljóp um öskrandi. Aðrir voru fastir þegar jörðin opnaðist og hús og jörð féllu ofan í sprungurnar.

Michael segist hafa heyrt fólk öskra er það hrapaði ofan í sprungurnar og stríður straumur vökvakennds jarðvegs og aurskriður lokuðu það þar undir.

Íbúar ganga yfir sprungu í einni af götum Petobo.
Íbúar ganga yfir sprungu í einni af götum Petobo. AFP

Telur um helming þorpsbúa horfinn

Þorpið er nú lokað af og standa hersveitir vörð á meðan björgunarsveitir grafa sig í gegnum fleiri metra af jarðvegi. Búið er að grafa 19 lík úr þorpsrústunum og búist er við að fjöldi látinna eigi eftir að hækka verulega, enda er mikið uppgreftrarstarf enn óunnið. „Þetta kunna að verða hundruð manna, eða þúsundir. Við vitum það bara ekki enn þá,“ sagði björgunarsveitarmaðurinn Chandra.

Þeir íbúar Petobo sem lifðu af telja fjölda látinna mun hærri. „Það voru um 11.000 manns í Petobo og ég held að um helmingur þeirra sé horfinn,“ segir Sudiryo Djalano, sem safnaði upplýsingum um íbúafjölda í þorpinu fyrir síðustu kosningar.

„Petobo var þéttbýlt þorp og það bara sökk í jörðina.“

Þjóðgarðsvörðurinn og Petobo-búinn Muhammad Mansur telur að allt að 2.000 kunni að vera látnir. „Sum húsin fluttust um kílómetra vegalengd,“ segir hann og vantrúin í rödd hans er augljós.

Getur hrunið hvenær sem er

Í sumum hverfum Palu, þar sem löng bílalest er nú við hverja bensínstöð, gengur björgunarstarf hægt. Staðfest hefur verið að 1.400 hið minnsta hafi lát­ist í nátt­úru­ham­för­un­um og er talið nán­ast óhugs­andi að nokk­ur finn­ist á lífi héðan í frá. Stjórn­völd í Indó­nes­íu hafa engu að síður sett föstu­dag sem síðasta mögu­lega dag til að finna ein­hvern á lífi í hús­a­rúst­un­um.

Í rústum Mercure-hótelsins, sem var staðsett við ströndina í Palu, nota björgunarsveitarmenn dróna og myndavélar til að reyna að bera kennsl á fórnarlömb. Þeir óttast að hótelið geti hrunið ofan á þá hvenær sem er. Önnur hæð hússins er sokkin ofan í jörðina og sá hluti sem uppi stendur hallast sérkennilega.   

Trésmiðurinn og borgarstarfsmaðurinn Martinius Hamaele er búinn að vera að leita fólks í rústum hótelsins frá því á föstudag. Hann hafði flýtt sér þangað til að bjarga dóttur sinni sem vann í bókunardeild hótelsins. Hann skreið um í rústunum og kallaði nafn hennar, en hún svaraði ekki. Aðrir gerðu það hins vegar. „Ég sagði þeim að eyða ekki orkunni í að kalla. Þeir ættu frekar að finna eitthvað til að berja í veggina og þá gæti ég rakið hljóðið,“ segir hann.

Hann náði sjö manns lifandi úr rústunum það kvöld, þótt einn þeirra hafi síðar dáið. Dóttur sína hefur hann hins vegar ekki fundið.

Húsvörður á Mercure segir það hafa verið nær fullbókað er skjálftinn reið yfir og því hafi að minnsta kosti 100 gestir verið þar. Dóttir Martinius kann að reynast eitt fórnarlambanna sem björgunarsveitir munu finna í rústunum næstu daga eða vikur.

„Ég held að það sé síðasti séns að finna hana á lífi í dag,“ segir Martinius. „Eftir það verður henni bætt á listann yfir hina látnu.

Þessi heimavistarskólí í Petobo hrundi í skjálftanum.
Þessi heimavistarskólí í Petobo hrundi í skjálftanum. AFP
mbl.is