Fan Bingbing biðst afsökunar

Kínverska stórstjarnan Fan Bingbing, sem hvarf sporlaust í júlí, hefur birt langa afsökunarbeiðni á samfélagsmiðli. Hún hefur verið sektuð um 129 milljónir dala, rúmlega 14 milljarða króna, fyrir meint skattalagabrot sem og fleiri brot.

Í frétt BBC segir að Fan, sem er tekjuhæsta leikkona Kína, verði ekki ákærð fyrir meint brot sín greiði hún sektina. Frá þessu er greint í kínverska ríkisfjölmiðlinum Xinhua.

Stjórnvöld í Kína hafa reynt að koma upp um það sem þau telja svindl í kvikmyndageiranum. Þannig telja þau að leikarar skrifi undir tvo samninga, einn sem er birtur opinberlega en annan sem farið er eftir við greiðslu launa. Eru þessir samningar kallaðir jin-jang og sagðir vera notaðir til að greiða stórstjörnum hærri laun en gefin eru upp til skatts. 

Yfirvöld hafa nú krafist þess að Fan og fyrirtæki á hennar vegum greiði háar fjárhæðir í skatta og sektir.

Fan er 37 ára. Hún er mjög þekkt í heimalandi sínu en einnig á Vesturlöndum m.a. fyrir hlutverk sitt í X-Men-kvikmyndunum. 

Hún hefur ekki sést opinberlega frá 1. júlí og ekki er vitað hvar hana er nú að finna eða hvar hún hefur dvalið síðustu mánuði. 

Í færslu hennar á samfélagsmiðlinum Weibo skrifar hún að hún hafi verið í haldi á leynilegum stað. „Ég hef þjáðst mikið undanfarið og ég skammast mín svo mikið fyrir það sem ég hef gert. Og hér vil ég biðja alla innilegrar afsökunar,“ skrifar hún meðal annars. 

Hún segist samþykkja refsingu sína, sem sé studd með lögum, eftir að hafa undirgengist rannsókn á skattalagabrotum. „Ég mun reyna mitt besta til að komast í gegnum erfiðleikana, safna peningum, borga skatta og sektir.“

Í yfirlýsingunni ber hún einnig lof á hinn kínverska Kommúnistaflokk og skrifar: „Án þessarar góðu stefnu flokksins og ríkisins, án ástar fólksins, þá væri engin Fan Bingbing.“

Aðdáendur Fan Bingbing kalla sig Bingbang, sem er orðaleikur að …
Aðdáendur Fan Bingbing kalla sig Bingbang, sem er orðaleikur að eiginnafni hennar og þýðir frostpinnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert