#metoo-hreyfingin gaf Mayorga kjark

Ronaldo hefur neitað ásökunum Mayorga og segir samvisku sína hreina.
Ronaldo hefur neitað ásökunum Mayorga og segir samvisku sína hreina. AFP

Kathryn Mayorga, sem sakað hefur knattspyrnumanninn Cristiano Ronaldo um að hafa nauðgað henni á hóteli í Las Vegas árið 2009, segist hafa ákveðið að stíga fram með ásakanir sínar í tengslum við #metoo-byltinguna. Aðrar konur hafi veitt henni hugrekki til að greina frá ofbeldinu. Lögmaður hennar greindi frá þessu á blaðamannafundi í dag.

„Metoo-hreyfingin og aðrar konur sem hafa stigið fram og afhjúpað kynferðisofbeldi hafa gefið Kathryn mikið hugrekki, og það hefur gert henni kleift að stíga fram,“ sagði Leslie Stovall, lögmaður hennar, í dag.

Cristiano Ronaldo sendi frá sér yf­ir­lýs­ingu á Twitter í dag þar sem hann harðneit­ar að hafa nauðgað Kat­hryn Mayorga, en lög­regl­an í Las Vegas tók á dög­un­um upp að nýju rann­sókn vegna ásakana Mayorga.

Mayorga seg­ir Ronaldo hafa ráðist á hana og nauðgað henni í hót­el­her­bergi í borg­inni árið 2009. Der Spieg­el birti á dög­un­um ít­ar­legt viðtal við Mayorga, þar sem hún greindi frá at­vik­inu í smá­atriðum. Ronaldo hyggst höfða mál gegn þýska tíma­rit­inu. 

Sam­kvæmt Der Spieg­el borgaði Ronaldo 375 þúsund Banda­ríkja­dali gegn því að Mayorga kæmi ekki fram með ásak­an­ir á hend­ur hon­um á op­in­ber­um vett­vangi.

„Ég harðneita ásök­un­un­um. Nauðgun er viðbjóðsleg­ur glæp­ur sem er gegn öllu sem ég trúi á. Auðvitað vil ég hreinsa nafn mitt, en ég neita að mata fjöl­miðla sem vilja koma sér á fram­færi á minn kostnað. Sam­viska mín er hrein og bíð ég því ró­leg­ur eft­ir að mál­inu ljúki,“ skrifaði Ronaldo á Twitter. 

Lög­regl­an í Las Vegas hefur staðfest að málið hafi verið rannsakað í júní 2009 en ekki hafi verið nein­ar upp­lýs­ing­ar að fá um of­beld­is­mann­inn. Mayorga hafi hvorki upp­lýst um hvar nauðgun­in átti sér stað né held­ur hver var að verki. Rann­sókn þess geti nú haf­ist að nýju þar sem upp­lýst hafi verið um hver ger­and­inn var og hvar hann nauðgaði henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert