Reyndu að stela milljarði dollara í netárásum

Netárásir eru sagðar notaðar af Norður-Kóreu við fjármögnun ólöglegra sjóða. …
Netárásir eru sagðar notaðar af Norður-Kóreu við fjármögnun ólöglegra sjóða. Mynd úr safni. AFP

Ráðamenn í Norður-Kóreu nota net tölvuþrjóta til að stunda efnahagsglæpi fyrir stjórn Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu. Þetta er fullyrt í skýrslu frá FireEye, samtökum sem fylgjast með netöryggi, og segir í frétt CNN um málið að Norður-Kórea hafi reynt að stela yfir 1,1 milljarði dollara í „sérlega ágengum“ árásum á alþjóðabanka.

FireEye segir að hópurinn sem standi að árásunum nefnist APT38 og að hann hafi staðið fyrir að minnsta kosti 16 aðgerðum í 11 ríkjum og stundum í fleiri en einu ríki í einu. Slíkt gefi til kynna að hópurinn hafi „fjölmenna og afkastamikla starfsemi og sé með öflugt kerfi“.

Í skýrslunni er einnig fullyrt að hópurinn hafi að öllum líkindum staðið fyrir árásum á fleiri stofnanir og líklegt megi telja að hann hafi náð að stela yfir 100 milljón dollurum í gegnum aðgerðir sínar frá 2014.

CNN segir sífellt ósvífnari aðgerðir norðurkóreskra stjórnvalda í netheimum hafa átt sér stað á sama tíma og dregið hefur úr kjarnorkuvæðingu ríkisins. Eru netárásirnar sagðar hafa haldið áfram á sama tíma og viðræður við Bandaríkin og Suður-Kóreu halda áfram.

Stjórn Donald Trumps Bandaríkjaforseta hefur tekið skýrt fram að efnahagsrefsingum gegn Norður-Kóreu verði ekki hætt fyrr en afvopnavæðingu kjarnavopna er náð og segir CNN það valda því að Norður-Kórea leiti annarra tekjuleiða.

Netárásir séu notaðar af þessu fátæka ríki við fjármögnun ólöglegra sjóða sem byggi á lausnargjaldsgreiðslum, þjófnaði á rafmynt og fölskum bankafærslum að því er segir í skýrslu samtakanna Foundation for Defense of Democracies (FDD), sem fylgjast með þjóðaröryggismálum og utanríkismálum.

Varar Samantha Ravich, ráðgjafi hjá FDD, við því að Norður-Kórea geti líka beitt netárásum til að ráðast gegn bandarískum efnahag.

„Fyrir 15 eða 10 árum síðan, þegar verið var að leggja mat á mögulegt bakskot af refsiaðgerðum Bandaríkjanna gegn Norður-Kóreu eða með sameiginlegum heræfingum Bandaríkjanna og Suður-Kóreu, var aldrei inni í myndinni að stjórn Kim gæti ráðist gegn bandarískum efnahag,“ sagði Ravich.

„Núna hefur Norður-Kórea einar ágengustu og hæfustu netaðgerðirnar. Standi Norður-Kórea frammi fyrir bandarískum refsiaðgerðum kunna ráðamenn að hugleiða að nota nethæfni sína til að ráðast á bandarískan efnahag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert