Undirbjuggu netárás á efnavopnastofnun

Rússarnir fjórir komu til Hollands á diplómatavegabréfum.
Rússarnir fjórir komu til Hollands á diplómatavegabréfum. Ljósmynd/Hollenska varnarmálaráðuneytið

Hollenska öryggislögreglan rak í apríl fjóra Rússa úr landi vegna netárásar sem beinast átti gegn OPCW, alþjóðlegri stofnun gegn notkun efnavopna.

BBC hefur eftir hollensku lögreglunni að leyniþjónusta rússneska hersins GRU hafa staðið að árásinni.

Stofnunin var á þessum tíma að rannsaka taugaeiturárás sem gerð var á rússneska gagnnjósnarann Sergei Skripal og Yuliu dóttur hans í Bretlandi í mars. Þá var stofnunin einnig með til rannsóknar meintar efnavopnaárásir í Sýrlandi og, að sögn Guardian, einnig atvikið er farþegaþotan MH17 var skotin niður yfir Úkraínu 2004, með þeim afleiðingum að allir 298 sem um borð voru létust.

Rússnesk yfirvöld hafa alltaf neitað því að hafa staðið að nokkrum efnavopnaárásum.

Segja hollensk yfirvöld að upp hafi komist um áætlunina í kjölfar samstarfs Hollendinga við bresk og bandarísk yfirvöld.

Eru mennirnir fjórir sagðir hafa komið til landsins á diplómatavegabréfum. Einn þeirra er sagður hafa verið tölvusérfræðingur, en hinir aðstoðarmenn hans. Mennirnir leigðu bíl og til þeirra sást kanna aðstæður fyrir netárásina sem stóð til að gera á OPCW.

Guardian segir hollensku öryggislögregluna hafa gripið mennina fjóra í miðjum glæp og að þeir hefðu verið sendir samstundis til baka til Rússlands, en hald lagt á tæknibúnað þeirra.

„Djöfullegur kokteill ásakana“

Þá benda heimildir Guardian einnig til þess að netglæpadeild GRU hafi reynt að gera netárás á Porton Down-efnavopnarannsóknarstofurnar í Bretlandi á svipuðum tíma. 

Hald var lagt á fartölvu sem mennirnir voru með og hafði hún verið notuð í Brasilíu, Sviss og Malasíu. Var tölvan notuð í Malasíu til að ná fram upplýsingum um rannsóknina á MH-17, sem var flugvél Malaysia Airlines-flugfélagins.  

BBC segir ásakanirnar nú bætast við fjölda annarra ásakana vegna meintra tölvuárása rússneskra ráðamanna víða um heim. Fyrr í dag sökuðu bresk stjórnvöld GRU um að standa fyrir fjórum umfangsmiklum netárásum, m.a. á fyrirtæki í Rússlandi, Úkraínu og sjónvarpsstöð í Bretlandi, sem og bandaríska Demókrataflokkinn. 

Rússnesk stjórnvöld hafa neitað slíkum ásökunum og sagt þar vera á ferð „djöfullegan kokteil“ ásakana.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert