Sýndi GRU viljandi hroðvirkni?

Rússarnir fjórir sem standa áttu að netárás á OPCW komu …
Rússarnir fjórir sem standa áttu að netárás á OPCW komu til Hollands á diplómata vegabréfum. Ljósmynd/Hollenska varnarmálaráðuneytið

Undanfarnar fjórar vikur hljóta að teljast eitt vandræðalegasta tímabil sögunnar fyrir leyniþjónustu rússneska hersins (GRU) segir breska dagblaðið Guardian. Svo virðist nefnilega sem hin leynilega og dirfskufulla stofnun GRU hafi tapað örlítið áttum með tilkomu netsins.

Á þeim 30 dögum sem liðnir eru frá því að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, greindi frá dulnefnum þeirra sem grunaðir eru um að eitra fyrir rússneska gagnnjósnarann Sergei Skripal og dóttur hans Yuliu, hafa upplýsingar streymt frá leyniþjónustum annarra landa og netspæjurum, með smá aðstoð frá Vladimír Pútín Rússlandsforseta.

Guardian segir að þrátt fyrir tilraunir rússneskra ráðamanna til að leiða fyrirspurnir vegna málsins hjá sér, hafi upplýsingarnar ratað upp á yfirborðið. GRU hafi alltaf haft orð á sér fyrir að vera dirfskufull leyniþjónusta, sem ekki hafi  liðið fyrir tengsl sín við sérsveitir og að hafa innan sinna raða leyniþjónustufulltrúa sem tekið hafi þátt í átökum.

Bílarnir skráðir á njósnaakademíuna

Hollensk yfirvöld greindu frá því í gær að fjórir Rússar hefðu verið reknir úr landi í apríl vegna netárás­ar sem bein­ast átti gegn OPCW, alþjóðlegri stofn­un gegn notk­un efna­vopna. Guardian segir þá aðgerð GRU virka einkennilega kæruleysislega og hroðvirknislega. Einföld leit með Google leitarvélinni hafi þannig geta sýnt fram á að mennirnir fjórir höfðu útskrifast úr herskóla GRU.

Hollensk yfirvöld sögðu einn mannanna hafa verið með fimm bíla skráða í sínu nafni á heimilisfangi norðvestur af Moskvu sem gengur undir nafninu „Fiskabúrið“, sem er akademía GRU fyrir úrvalsnjósnara.

Samkvæmt skrám sem finna má á netinu ók maðurinn Honda Civic og breytti svo yfir í Alfa Romeo,. Hafi heimilisfangið ekki hringt neinum bjöllum hjá rannsakendum, þá gaf maðurinn einnig upp símanúmerið hjá hernaðar- og diplómataakademíunni.

Það er sama akademía og Anatoliy Chepiga, sem er rétt nafn annars mannanna sem grunaðir eru um tilræðið við Skripal, nam við. Viktor Suvorov, fyrrverandi liðsmaður GRU sem síðar gerðist liðhlaupi og flúði til Vesturlanda, hefur lýst akademíunni sem svo leynilegri að það gæti varða sovéska borgara fangavist að greina frá tilvist hennar.

Mun erfiðara virðist hins vegar að fela slíkar upplýsingar á tímum internetsins og segir Guardian að svo virðist sem GRU hafi talið það ekki skipta máli.

Njósnarar á stefnumótasíðum og í áhugamannadeildinni

Ekki virðist þá frekar hafa verið talið skipta máli að flesta hinna meintu leyniþjónustumanna megi finna á netinu.

Þannig hafi Aleksei Morenets, hinn meinti tölvuþrjótur í hópnum, verið með lýsingu af sér á stefnumótasíðu.  

Mennirnir tveir sem bresk yfirvöld gruna um að hafa eitrað …
Mennirnir tveir sem bresk yfirvöld gruna um að hafa eitrað fyrir Skripal feðginunum. Búið er að bera kennsl á þá sem liðsmenn leyniþjónustu rússneska hersins GRU. AFP

Annar spilaði fótbolta með áhugamannaliði í Moskvu sem „þekkt var sem „öryggislögregluliðið“ að því er einn leikmannanna sagði í samtali við Moskow Times. „Næstum allir í liðinu vinna fyrir leyniþjónustuna,“ bætti hann við. Tímatafla liðsins er öllum sýnileg á netinu.

Rússnesk yfirvöld hafa fullyrt að rannsóknirnar séu blekking og að þeir sem að þeim standa taki þátt í samsæri vestrænna leyniþjónustustofnanna. Guardian segir hins vegar flestar upplýsingar til að hafa uppi á leyniþjónustumönnunum hafa verið hæglega auðfundnar á netinu og sumar jafnvel þægilega tímasettar á samfélagsmiðlum.

Með nægan fjölda síma til að fylla raftækjaverslun

Sá ferill hafi hafist þegar Pútín gerði fulltrúunum sem grunaðir voru um tilræðið við Skripal að koma fram í rússnesku sjónvarpi. Þar sögðu þeir ótrúverðuga sögu um heimsókn sína í dómkirkju Sailsbury tvo daga í röð, á meðan að einn ritstjóra rússneska ríkissjónvarpið reyndi að gefa í skyn að þeir væru mögulega samkynhneigðir.

Það hjálpaði ekki, þar sem fljótlega eftir þetta komst upp að annar mannanna var að öllum líkindum ofursti hjá GRU, en netspæjurum tókst að grafa upp myndir af honum við herþjónustu sem og vegabréfaskráningum sem lekið hafði verið á netið.

Vefmiðlarnir Bellingcat og Insider bentu skömmu síðar á að númerin á vegabréfum tilræðismannanna tveggja væru hvert á eftir öðrum, sem auðveldaði enn frekar að bera kennsl á þá.

Guardian segir fagmennskuna ekki hafa verið meiri hjá þeim hópi sem standa átti að netárásinni á OPCW. Hópurinn hefði verið með nægan fjölda farsíma á sér til að fylla raftækjaverslun. Þá hefðu mennirnir, líkt og allir samviskusamir Rússar í viðskiptaferðalagi, geymt kvittanirnar fyrir leigubílnum sem flutti þá frá höfuðstöðvum GRU.

Ekki er talið neitt efamál að rússneskir ráðamenn muni neita öllum fréttum af meintum afskiptum GRU af aðgerðunum. Þær eru engu að síður taldar vekja upp spurningar meðal annarra leyniþjónustustofnanna um það hvort GRU hafi viljandi sýnt slíka hroðvirkni, eða hvort að stofnunin sé einfaldlega að missa takið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert