Hverfandi líkur á að finna fólk á lífi

Vopnuð lögregla við rústir vöruhúss í borginni Palu.
Vopnuð lögregla við rústir vöruhúss í borginni Palu. AFP

Átta dögum eftir hræðilegar náttúruhamfarir leitar björgunarfólk að eftirlifendum jarðskjálftans og flóðbylgjunnar sem reið yfir indónesísku-eyjuna Sulawesi. Tala látinna er nú komin upp í 1.649 og hafa yfirvöld nærri gefið upp alla von um að finna fleiri á lífi í húsarústum á eyjunni. Óttast er að þúsundir til viðbótar séu í rústunum. Leit hefur ekki verið blásin af.

„Flest líkanna sem við höfum fundið eru í mjög slæmu ástandi sem skapar hættu fyrir björgunarfólkið,“ segir Yusuf Latif, talsmaður björgunaraðgerða á svæðinu. Hann segir björgunarfólkið vera bólusett en þrátt fyrir það þurfi að fara mjög gætilega til að koma í veg fyrir smitsjúkdóma.

Öryggisráðherra Indónesíu, Wiranto, sem ber bara eitt nafn líkt og algengt er í Indónesíu segir að fljótlega þurfi að fara að taka ákvörðun um að hætta leit á verst förnu svæðunum og skilgreina þau sem fjöldagrafir.

mbl.is