Vilja að May hætti við Brexit

Bob Geldof.
Bob Geldof. AFP

Tugir breskra tónlistarmanna, þar á meðal Ed Sheeran og Rita Ora, rita opið bréf til Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, í breska dagblaðið Observer þar sem þeir skora á hana að hætta við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Fram kemur í frétt AFP að opna bréfið sé skipulagt af tónlistarmanninum Bob Geldof sem beitti sér gegn því að Bretland gengi úr Evrópusambandinu í aðdraganda þjóðaratkvæðisins 2016 þar sem meirihluti kjósenda samþykkti útgönguna. Haft er eftir Geldof að hann vilji annaðhvort endurtaka þjóðaratkvæðið eða vera áfram innan Evrópusambandsins.

Tónlistarmennirnir lýsa því yfir að útganga úr Evrópusambandinu sé „algert brjálæði“ og að hún ógni breskum tónlistariðnaði. Er May hvött til þess að endurskoða þá ákvörðun að Bretland skuli ganga úr sambandinu í samræmi við niðurstöðu þjóðaratkvæðisins.

Aðrir tónlistarmenn sem rita undir bréfið eru meðal annars Damon Albarn, Jarvis Cocker, Simon Rattle og Brian Eno. Miðað er við að Bretland gangi úr Evrópusambandinu í lok mars á næsta ári en enn hefur ekki verið samið um tengsl landsins við sambandið eftir útgönguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert