Annar fellibylur stefnir á Bandaríkin

Gervihnattamynd af fellibylnum Michael frá klukkan 14:30 í dag.
Gervihnattamynd af fellibylnum Michael frá klukkan 14:30 í dag. AFP

Styrkur fellibyljarins Mikaels jókst í dag og flokkast hann nú sem fyrsta stigs fellibylur meðan hann nálgast suðurströnd Bandaríkjanna. Vindhraði mælist yfir 33 metrar á sekúndu en fellibylurinn var staðsettur milli Yucatan-skagans og vesturstrandar Kúbu um þrjúleytið í dag. Mikael stefnir á Flórída og er búist við því að hann verði orðinn að þriðja stigs fellibyl þegar hann lendir þar, segir bandaríska fellibyljastofnunin (NHC).

Talið er að Mikael muni fylgja ólgusjór, hellirigning og ógnarsterkir vindar sem ógnað geti heilsu og lífi manna. Ofsarigningin gæti kallað fram „lífshættuleg skyndiflóð“ segir NHC.

Þurfa að undirbúa sig á stundinni

Ríkisstjóri Flórída, Rick Scott, lýsti fyrr í dag yfir neyðarástandi í 26 sýslum og sagði m.a. á Twitter: „Fjölskyldur í Flórída þurfa að búa sig undir þennan storm NÚNA STRAX.“

Búist er við að Mikael lendi á Flórída á miðvikudag og fikri sig svo í norðaustur yfir ríki í suðausturhluta Bandaríkjanna. Þeirra á meðal eru Karólínuríkin tvö, norður og suður, sem eru enn að ná sér eftir fellibylinn Flórens, sem varð fjölda fólks að bana og er talinn hafa skilið eftir sig skaða upp á milljarða dollara. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert