Traust til Pútíns fer minnkandi

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP

Traust í garð Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands, hefur dregist mikið saman samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem birtar voru í dag, en deilur standa yfir í landinu um umbætur stjórnvalda í eftirlaunamálum.

Forsetinn nýtur trausts 39% Rússa ef marka má könnunina sem gerð var af Levada-stofnuninni. Traust til Pútíns hefur minnkað um 9 prósentustig frá því í júní og um 20 prósentustig frá í nóvember 2017.

Fram kemur í frétt AFP að þetta sé minnsta traust sem mælst hefur í garð Pútíns frá árinu 2014. Eftir það jukust vinsældir hans í kjölfar þess að Krímskagi var innlimaður í Rússland. 13% sögðust í könnuninni nú ekki treysta Pútín.

Forsetinn undirritaði í síðustu viku lög sem fela í sér hækkun eftirlaunaaldurs karla í 65 ár og kvenna í 60 ár sem er fyrsta hækkunin í þeim efnum síðan á fjórða áratug síðustu aldar. Hefur breytingin leitt til mótmæla á götum úti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert