Vilja skrá ríkin sem örugg

AFP

Þjóðverjar hafa fjölgað mjög heimsendingum hælisleitenda frá Norður-Afríku að undanförnu og er það vegna bættra samskipta við ríki þar, segir talsmaður þýska innanríkisráðuneytisins.

Um er að ræða fólk sem hefur sótt um hæli í Þýskalandi frá Alsír, Marokkó og Túnis. Þýsk yfirvöld hafa undanfarið reynt að stöðva flóttafólk sem þangað kemur og fellur ekki undir alþjóðlega skilgreiningu á flóttafólki. Það er  fólk á flótta undan fátækt og örbrigð ekki stríðsátökum. 

Bild hefur eftir ónafngreindum heimildum innan úr stjórnkerfinu að ítrekaðir fundir og viðræður að undanförnu hafi skilað samstarfi við ríki Norður-Afríku um að skiptast á upplýsingum um þá sem vísa á úr landi og að tekið verði við þeim aftur í ríkjunum sem þeir koma frá.

Ríkisstjórn Þýskalands hefur jafnframt unnið að skráningu ríkjanna þriggja sem örugg lönd sem gerir þeim auðveldara um vik að senda flóttafólkið til baka. Ekki hefur enn tekist að koma frumvarpi þar að lútandi í gegnum efri deild þingsins þar sem Græningjar neita að samþykkja að hægt sé að segja ríkin örugg á sama tíma og blaðamenn, samkynhneigðir og aðrir minnihlutahópar verða fyrir ofsóknum af hálfu stjórnvalda í ríkjunum þremur. 

mbl.is