Dómari og rithöfundur taka sæti í akademíunni

Rithöfundurinn Jila Mossaed.
Rithöfundurinn Jila Mossaed. AFP

Karl XVI. Gústaf Svíakonungur samþykkti síðasta föstudag tillögu Sænsku akademíunnar (SA) að tveimur nýjum meðlimum. Lögmaðurinn Eric M. Runesson tekur við stól nr. 1 af Lottu Lotass og rithöfundurinn Jila Mossaed við stól nr. 15 af Kerstin Ekman. Mossaed fæddist í Íran 1948 en flúði til Svíþjóðar 1986 þar sem hún hefur búið síðan. Hún þykir ljómandi skáld sem birt hefur verk sín bæði á sænsku og persnesku.

Dómarinn Eric M Runesson.
Dómarinn Eric M Runesson. AFP

Löng hefð er fyrir því að löglærður einstaklingur skipi stól nr. 1. Runesson, sem fæddur er 1960, hefur starfað sem lögmaður frá 1993 og var í seinasta mánuði skipaður dómari við Hæstarétt Svíþjóðar. Í umfjöllun SVT um málið kemur fram að Runesson hafi fyrr á árinu miðlað málum milli SA og Nóbelsstofnunarinnar, en eins og kunnugt er hefur Lars Heikensten, stjórnandi hennar, látið hafa eftir sér að ekki sé útilokað að SA verði svipt réttinum til að veita Nóbelsverðlaun.

Mál Frostenson hluti af lausn

Alls greiddu 13 af 18 meðlimum SA atkvæði á vikulegum fundi hennar síðasta fimmtudag, en alls þarf atkvæði 12 meðlima til að taka allar meiriháttar ákvarðanir. Í samtali við SVT staðfestir Anders Olsson, starfandi ritari SA, að Sara Danius, Peter Englund og Kjell Espmark hafi ekki sótt fundinn í eigin persónu, heldur greitt atkvæði skriflega, en opnað var fyrir þann möguleika í nútímatúlkun á sáttmála SA frá 1786 sem samþykkt var í seinasta mánuði.

Jean-Claude Arnault við réttarhöld sín í Stokkhólmi fyrr í mánuðinum.
Jean-Claude Arnault við réttarhöld sín í Stokkhólmi fyrr í mánuðinum. AFP

Þremenningarnir krefjast þess að Katarinu Frostenson verði vikið úr SA til frambúðar. Ekki liggur ljóst fyrir hvort Frostenson hafi verið boðið til fundarins eða hún haft möguleika á að kjósa, en Frostenson dró sig út úr starfi SA um óákveðinn tíma í apríl sl. eftir harðvítugar deilur innan SA um það hvernig taka skyldi á alvarlegum ásökunum á hendur eiginmanni hennar, Jean-Claude Arnault. Hann var í byrjun mánaðarins dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að nauðga konu í árslok 2011, en fjöldi annarra kvenna hefur frá 1997 sakað hann um kynferðisofbeldi og áreitni.

Björn Hurtig, verjandi Jean-Claude Arnault.
Björn Hurtig, verjandi Jean-Claude Arnault. AFP

Í gær varð ljóst að bæði Björn Hurtig, verjandi Arnault, og Christina Voigt ríkissaksóknari hefðu áfrýjað dómnum. Hann krefst sýknu, hún refsiþyngingar. Arnault verður í gæsluvarðhaldi þar til málið er útkljáð.

Christina Voigt ríkissaksóknari í Svíþjóð.
Christina Voigt ríkissaksóknari í Svíþjóð. AFP

Samkvæmt heimildum SVT mun vera meirihluti fyrir því innan SA að víkja Frostenson endanlega úr SA, en Olsson hefur ekki viljað tjá sig um það. „Við höfum komist að samkomulagi um hvernig við leysum málið, en ég vil ekki segja meira á þessari stundu,“ sagði hann að loknum síðasta fundi SA.

Hjónin Katarina Frostenson og Jean-Claude Arnault undir lok ársins 2011 …
Hjónin Katarina Frostenson og Jean-Claude Arnault undir lok ársins 2011 á leið sinni í mat hjá Svíakonungi. Arnault var í byrjun mánaðar dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að nauðga konu um svipað leyti. AFP

„Samstaðan sem náðist um mál Frostenson var forsenda þess að hægt væri að velja inn nýju meðlimina,“ segir Olsson og tekur fram að að enn standi til að afhenda tvenn Nóbelsverðlaun í bókmenntum á næsta ári, þ.e. fyrir 2018 og 2019, eins og fordæmi eru fyrir í sögu SA.

Mun ekki leysa krísuna

Í samtali við SVT að síðasta fundi SA loknum staðfesti Göran Malmqvist að ekki aðeins Danius, Englund og Espmark krefðust þess að Frostenson hætti alfarið í SA heldur kæmi sama krafa frá bæði sænsku hirðinni og Nóbelsstofnuninni. Hvorki Heikensten né Margareta Thorgren, upplýsingafulltrúi hirðarinnar, vildu tjá sig um málið við SVT þegar eftir því var leitað.

Þó að valinu á Runesson og Mossaed sé almennt fagnað efast álitsgjafar um að tilkoma þeirra inn í SA breyti miklu. „Hvorugt þeirra mun leysa krísu akademíunnar. Þau eru valin inn í akademíuna af meðlimunum sem valdið hafa krísunni og neitað hafa að horfast í augu við að þeir eru sjálfir hluti af vandamálinu,“ skrifar Ingrid Elam, bókmenntagagnrýnandi, á vef SVT, en t.d. Horace Engdahl hefur í gegnum tíðina verið ötull bandamaður Arnault.

Rifjar Elam upp að meðlimir SA hafa á síðustu 10 mánuðum margoft tjáð sig þess efnis að SA ráði yfir eigin málum og geti gert eins og henni þóknist án samráðs við aðra. Segir hún það ábyrgðarhluti þegar meðlimir SA hugsi fremur um eigin hag en heill akademíunnar. „Það mun taka mörg ár og krefjast mun róttækari breytinga áður en akademíunni tekst að endurheimta fyrra traust sitt.“

Undir þetta tekur Anna Hellgren, ritstjóri bókmenntaumfjöllunar á menningarsíðum Expressen. Hún segir ljóst að meirihluti meðlima SA hafi ekki sinnt kalli tímans og nútímavætt stofnunina. 

Ofangreind frétt birtist fyrst í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert