Í haldi vegna morðsins á fréttakonunni

Blóm við hlið myndar af fréttakonunni Viktoriu Marinovu í borginni …
Blóm við hlið myndar af fréttakonunni Viktoriu Marinovu í borginni Rousse. AFP

Maður er í haldi lögreglunnar í tengslum við rannsókn á morði á búlgörskum fréttamanni í bænum Ruse í norðurhluta landsins. Þetta kom fram í fréttum ríkisútvarpsins þar í landi.

Blaðakonan Viktoria Marinova var þrítug. Hún var stjórnandi umræðuþáttar á lítilli sjónvarpsstöð, TVN. Morðið á henni hefur vakið mikinn óhug bæði í Búlgaríu sem og víðar.

Í ljós kom á sunnudag eftir að lík Marinovu hafði fundist í almenningsgarði daginn áður. Lögreglan hefur boðað til blaðamannafundar vegna málsins síðdegis í dag. 

Yfirvöld segja að blaðakonan hafi kafnað en auk þess fengið þung högg í höfuðið. Þá er ljóst að henni hafði verið nauðgað.

Saksóknarar segja að allar vísbendingar verði rannsakaðar, m.a. hvort morðið hafi haft eitthvað með starf Marinovu að gera. Blaðakonan hafði nýverið unnið að þætti um meinta spillingu í viðskiptalífinu og stjórnmálum í Búlgaríu.

Marinova er þriðji blaðamaðurinn sem myrtur er í Evrópu síðustu tólf mánuði. Jan Kuckiak var drepinn í Slóvakíu í febrúar og Daphne Caruana Galizia á Möltu í október á síðasta ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert