Kim Jong-un býður páfa í heimsókn

Kim Jong-un hefur boðið Frans páfa í heimsókn.
Kim Jong-un hefur boðið Frans páfa í heimsókn. AFP

Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, hefur boðið Frans páfa í heimsókn til landsins. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá forsetaskrifstofu nágrannaríkisins Suður-Kóreu.

Það mun verða forseti Suður-Kóreu, Moon Jae-in sem mun formlega afhenda páfa heimboðið í heimsókn sinni til Vatíkansins í næstu viku. Enginn páfi hefur heimsótt Norður-Kóreu en Jóhannesi Páli páfa II var eitt sinn boðið í heimsókn. Engin formleg tengsl eru á milli stjórnvalda í Norður-Kóreu og Páfagarðs.

Í tilkynningu frá forsetaskrifstofu Suður-Kóreu segir að í heimsókn sinni muni Moon færa páfanum skilaboð frá Kim Jong-un um að honum sé boðið í heimsókn til höfuðborgarinnar Pyongyang.

Sérfræðingar telja að boðið sé enn eitt merkið um sáttahönd Kims Jong-un en hann átti t.d. fund með Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrr á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert