Vilja rannsókn á dauða Albans

Andstæðingar Nicolas Maduro, forseta Venesúela, mótmæltu fyrir utan höfuðstöðvar leyniþjónustunnar …
Andstæðingar Nicolas Maduro, forseta Venesúela, mótmæltu fyrir utan höfuðstöðvar leyniþjónustunnar þar sem Fernando Alban lést. AFP

Sameinuðu þjóðirnar vilja að „gagnsæ rannsókn“ verði gerð á dauða forystumanns úr stjórnarandstöðu Venesúela sem lést er hann var í varðhaldi í landinu. Stjórnvöld í Venesúela segja að Fernando Alban hafi svipt sig lífi á meðan hann var í haldi.

„Fernando Alban var í varðhaldi á vegum ríkisins. Ríkið hafði skyldum að gegna við að tryggja öryggi hans og sæmd [...] Við viljum svo sannarlega að gagnsæ rannsókn verði gerð til að komast til botns í þeim kringumstæðum sem voru uppi er hann lést,“ sagði Ravina Shamdasani, talsmaður framkvæmdastjóra mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna, í dag. 

Alban var í haldi grunaður um að hafa tekið þátt í meintri og misheppnaðri drónaárás á forsetann Nicolas Maduro í byrjun ágúst.

Ríkissaksóknari Venesúela segir að Alban hafi hent sér út um glugga á tíundu hæð höfuðstöðva leyniþjónustunnar þangað sem hann hafði verið fluttur vegna réttarhalda.

Flokkur Albans kennir ríkisstjórn Maduros um dauða hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert