5 farast í skyndiflóði á Majorka

Stór alda eðjuvatns færði bæinn Sant Llorenc des Cardassar í …
Stór alda eðjuvatns færði bæinn Sant Llorenc des Cardassar í kaf eftir að á flæddi yfir bakka sína í kjölfar úrhellisrigninga. Kort/Google

Fimm manns hið minnsta fórust og nokkurra er saknað eftir skyndiflóð á spænsku ferðamannaeyjunni Majorka.

BBC segir stóra öldu aurvatns hafa fært bæinn Sant Llorenc des Cardassar, sem er á austurhluta eyjunnar, í kaf eftir að á flæddi yfir bakka sína í kjölfar úrhellisrigninga.

Bílar bárust með straumnum og segja fjölmiðlar á Majorka að talið sé að níu manns sé saknað eftir flóðið. Að sögn breskra fjölmiðla eru tveir Bretar í hópi þeirra sem fórust í flóðinu.

Spænski herinn er á leið á vettvang með um hundrað manna lið björgunarmanna og leitarhunda. Þrjár þyrlur og herflugvél hafa einnig verið sendar á staðinn frá borginni Valencia á meginlandi Spánar.

 Þá hefur neyðarskýli verið opnað í bænum Manacor fyrir íbúða á flóðasvæðinu.

„Hugur minn er hjá fjölskyldum og vinum fórnarlambanna og allra þeirra sem urðu fyrir flópunum," sagði Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar á Twitter, en hann mun heimsækja flóðasvæðið síðar í dag.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert