Átta farast í skyndiflóði á Majorka

Bílar bárust með straumi flóðavatnsins eftir þröngum götum bæjarins.
Bílar bárust með straumi flóðavatnsins eftir þröngum götum bæjarins. Skjáskot/Twitter

Átta manns hið minnsta fór­ust og nokk­urra til viðbótar er saknað eft­ir skyndiflóð á spænsku ferðamanna­eyj­unni Maj­orka.

BBC seg­ir stóra öldu aur­vatns hafa fært bæ­inn Sant Ll­orenc des Car­dass­ar, sem er á aust­ur­hluta eyj­unn­ar, í kaf eft­ir að á flæddi yfir bakka sína í kjöl­far úr­hell­is­rign­inga.

Bíl­ar bár­ust með er straumurinn æddi eftir þröngum götum bæjarins. Spænska dagblaðið El Pais segir tvo Bret­a í hópi þeirra sem fór­ust, en þeir létust er leigubíll sem þeir voru í barst með straumnum. Leigubílstjórans er hins vegar enn saknað.

Tveir til viðbótar létust í Sant Ll­orenc des Car­dass­ar og vitað er um þrjá sem fórust í strandbænum S‘illot í flóðinu.

Spænski her­inn sendi um hundrað manna björg­un­ar­lið á vettvang, ásamt og leit­ar­hundum þyrlum og herflugvél til að aðstoða við björgunaraðgerðir.

Neyðar­skýli var opnað í bæn­um Manacor fyr­ir íbúða á flóðasvæðinu og var boðað til neyðarfundar með bæjaryfirvöldum á svæðinu vegna samhæfingar leitar- og björgunaraðgerða.

„Hug­ur minn er hjá fjöl­skyld­um og vin­um fórn­ar­lambanna og allra þeirra sem urðu fyr­ir flóð­un­um,“ sagði Pedro Sánchez, for­sæt­is­ráðherra Spán­ar, á Twitter, en hann mun heim­sækja flóðasvæðið síðar í dag.

Spænska þingið efndi svo til mínútuþagnar í minningu fórnarlambanna.

Öflug flóð urðu á suðurhluta Spánar í desember 2016 í kjölfar mikilla rigninga sem einnig kostuðu nokkur mannslíf. Þá náði vatnshæðin á götum bæja í nágrenni Malaga upp í brjósthæð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert