Fórnarlömb verði að hafa sannanir

Melania Trump.
Melania Trump. AFP

Melania Trump, forsetafrú Bandaríkjanna, segir að fórnarlömb sem stígi fram og saki einhvern um kynferðislega áreitni verði að hafa „haldbærar sannanir“ máli sínu til stuðnings. Hún hefur áður sagst styðja eiginmann sinn, Donald Trump, sem oft hefur verið sakaður um kynferðislegt áreiti.

Að minnsta kosti 13 konur stigu fram í aðdraganda forsetakosninganna vestanhafs fyrir tveimur árum og sökuðu Donald Trump um allt frá kynferðislegu áreiti til kynferðisofbeldis. 

„Ef þú sakar einhvern um eitthvað, sýndu þá sannanir þess efnis,“ sagði Trump í viðtali við ABC-fréttastofuna sem tekið var upp í Kenía í síðustu viku.

Melania segist styðja konur en sagði, líkt og eiginmaður hennar, að karlar þyrftu einnig á stuðningi að halda.

Melania og Donald Trump.
Melania og Donald Trump. AFP

„Ég styð konur og þeirra raddir þurfa að heyrast. Þær þurfa stuðning og einnig karlar, ekki bara konur,“ sagði Melania.

Hún sagði að konur sem kæmu fram sem fórnarlömb yrðu að vera tilbúnar að standa við ásakanir sínar. 

„Ég stend með konum en við verðum að sýna sönnunargögnin. Þú getur ekki bara sagt við einhvern: „ég var misnotuð“ eða „þú gerðir þetta við mig“ vegna þess að stundum ganga fjölmiðlar of langt. Stundum matreiða þeir sögur á þann hátt að þær eru ekki sannar og það er ekki réttlátt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina