Páfi líkti þungunarrofi við leigumorð

Frans páfi líkti þungunarrofi við það að ráða leigumorðingja til að losna við vandamál þegar hann ávarpaði mannfjölda á Sankti Péturstorginu í Vatíkaninu í dag.

Páfi fjallaði um fimmta boðorðið, „þú skalt ekki morð fremja“, í sínu vikulega ávarpi og nefndi í því samhengi þungunarrof. „Er það réttlætanlegt að nota leigumorðingja til að leysa vandamál?“ spurði páfi og það stóð ekki á svörum hjá þeim sem á hlýddu og heyra mátt skýrt „nei“ frá mannfjöldanum.

Þungunarrof hefur verið til umfjöllunar víðs vegar í heiminum á undanförnum misserum og er Ísland ekki undanskilið. Í síðasta mánuði lagði velferðarráðuneytið fram frumvarpsdrög þar sem þungunarrof verður heimilt fram að lokum 18. viku. Samkvæmt núgildandi lögum er þungunarrof heimilt fram í 16. viku.

mbl.is