Vínþjófur hrapaði til dauða

Meðal vína sem hann stal voru sjö flöskur af hágæða …
Meðal vína sem hann stal voru sjö flöskur af hágæða frönsku víni, Domaine de la Romanée-Conti, víni sem fagmenn lýsa sem „flaueli í vökvaformi“. Ljósmynd/Wikipedia.org

Maður sem hefur verið ákærður fyrir að stela fágætu víni fyrir yfir 1,2 milljónir dollara, eða sem nemur tæplega 140 milljónum króna, frá forstjóra fjárfestingabankans Goldman Sachs, virðist hafa tekið sitt eigið líf.

Nicolas De-Meyer átti að koma fyrir dómara í dag. Lögfræðingar hans mættu en fljótlega bárust fregnir af því að De-Meyer hefði hrapað fram af 33. hæð Carlyle-hótelsins í New York í gærkvöldi. Ekki hefur fengist staðfest hvort um sjálfsvíg hafi verið að ræða, en allt bendir til þess.

Systir De-Meyer segir í samtali við BBC að bróðir hennar hafi verið miður sín yfir þeirri stöðu sem hann var búinn að koma sér í og sendi hann henni SMS-skilaboð á mánudagskvöldið þar sem hann sagðist ætla að taka sitt eigið líf. Hún hafði samband við starfsfólk hótelsins sem gerði lögreglu viðvart en það var um seinan. De-Meyer var úrskurðaður látinn á staðnum.

De-Meyer, sem var 41 árs, gegndi starfi aðstoðarmanns David Solomon, núverandi forstjóra Goldman Sachs, í átta ár. Hann kom flöskunum, sem skiptu hundruðum, í verð í gegnum vínsala í Norður-Karólínu og notaði hagnaðinn til að ferðast um heiminn í rúmlega ár. 

David Solomon, forstjóri Goldman Sachs.
David Solomon, forstjóri Goldman Sachs. AFP

Meðal vína sem hann stal voru sjö flöskur af hágæða frönsku víni, Domaine de la Romanée-Conti, víni sem fagmenn lýsa sem „flaueli í vökvaformi“.

Átti hann yfir sér tíu ára fangelsisdóm vegna þjófnaðarins og til stóð að hann myndi játa frammi fyrir dómara í dag í von um að dómurinn yrði mildaður.

Solomon hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins að hann og eiginkona hans væru miður sín yfir fregnunum. „Hann var náinn fjölskylduvinur í nokkur ár, við erum harmi lostin yfir þessum sorglega endi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert