Ætla að afnema dauðarefsingar

Víetnaminn Doan Thi Huong (t.v.) fær fylgd lögreglukonu að réttarsal …
Víetnaminn Doan Thi Huong (t.v.) fær fylgd lögreglukonu að réttarsal í Malasíu. Hún átti dauðadóm yfir höfði sér þar sem hún er sökuð um að hafa myrt hálfbróður einræðisherra Norður-Kóreu. Nú verður lífi hennar þyrmt. AFP

Stjórnvöld í Malasíu ætla að afnema dauðarefsingar í landinu að því er ráðherra ríkisstjórnarinnar greindi frá í dag. Yfir 1.200 manns eru á dauðadeildum fangelsa Malasíu en vaxandi andstaða er við slíkar refsingar á meðal þjóðarinnar.

Dauðarefsing er ófrávíkjanleg ef fólk er dæmt fyrir morð, mannrán, brot á vopnalögum og eiturlyfjasmygl sem og fleiri glæpi. Refsingunni er framfylgt með hengingu sem er arfleifð frá nýlendutíma Breta.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch fagna þessum fréttum og segir aðstoðarframkvæmdastjóri þeirra að með ákvörðun Malasa aukist þrýstingur á stjórnvöld fleiri landa í þessum heimshluta að feta í þeirra fótspor.

Gobind Singh Deo Gobind, ráðherra samskipta og fjölmiðlunar, segir ríkisstjórnina hafa tekið þessa ákvörðun þar sem almenningur í landinu hafi sífellt orðið andvígari dauðarefsingum. „Ég vona að lögin verði samþykkt fljótlega.“

Annar ráðherra ríkisstjórnarinnar segir að aftökum fanga sem nú þegar eru á dauðadeild verði aflýst. „Þar sem við erum að afnema refsinguna ætti engin aftaka að fara fram,“ sagði ráðherrann í samtali við malasíska dagblaðið Star. 

Stefnt er að því að leggja frumvarp um afnám dauðarefsinga fram í næstu viku.

Verða ekki teknar af lífi

Meðal þeirra fanga sem áttu dauðadóm yfir höfði sér í Malasíu eru tvær konur sem sakaðar eru um að hafa myrt hálfbróður einræðisherra Norður-Kóreu, Kims Jong-un, í fyrra. Konurnar eru frá Víetnam og Indónesíu en þar sem hið meinta morð var framið á flugvelli í Malasíu munu réttarhöld yfir þeim fara fram þar í landi.

Þá mun afnám dauðarefsingarinnar einnig hafa áhrif á Mariu Elviru Pinto Exposto, ástralska konu á sextugsaldri, sem dæmd var á síðasta ári til dauða í Malasíu fyrir fíkniefnasmygl.

Malasía er í tíunda sæti á lista landa heimsins þar sem dauðarefsing er oftast framkvæmd. Árið 2016 var dauðarefsing heimil í 23 löndum.

 Á árunum 2007-2017 voru 35 fangar hengdir í Malasíu. 1.267 fangar eru nú á dauðadeildum fangelsa landsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert