Einni ákæru á hendur Weinstein vísað frá

Harvey Weinstein.
Harvey Weinstein. AFP

Dómari í New York í Bandaríkjunum hefur vísað frá einni af sex ákærum á hendur bandaríska kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein. 

Haft er eftir saksóknurum á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að leikkonan Lucia Evans hafi greint öðruvísi frá meintu kynferðisofbeldi Weinsteins gegn henni að sögn vitnis en hún hefði gert í skýrslutöku hjá þeim. Evans hafði greint fjölmiðlum frá því að Weinstein hafi neytt hana til munnmaka árið 2004.

Lögmaður Evans, Carrie Goldberg, segir að hún hafi greint saksóknurum rétt frá og að ákvörðun dómarans breyti því ekki að Weinstein hafi brotið gegn umbjóðanda hennar.

Fimm ákærur á hendur Weinstein eru hins vegar enn fyrir hendi en hann hefur vísað þeim öllum á bug og segist ekki hafa stundað kynlíf án samþykkis viðkomandi.

Haft er eftir lögmanni Weinsteins, Benjamin Brafman, að hann muni reyna að fá þeim vísað frá dómi að sama skapi. Weinstein hefur verið sakaður um kynferðisofbeldi af rúmlega 70 konum.

Weinstein var handtekinn í maí á þessu ári en var látinn laus gegn greiðslu tryggingar upp á eina milljón dollara. Hann gengur um með ökklaband og hefur látið vegabréf sitt af hendi.

Rannsóknir á kærum á hendur Weinstein eru einnig í gangi í Los Angeles og London auk þess sem alríkissaksóknarar eru að skoða mál hans.

mbl.is
Snjómokstur og Söltun GÍH
Vetrarþjónusta allan sólarhringinn. Vöktun í boði fyrir fyrirtæki og húsfélög. H...
Hauststemning í Biskupstungum...
Eigum laust sumarhús í okt/nóv. Hlý og kósí hús með heitum potti.. Besti vinur...
Perlur sem ekki þarf að strauja !!
Nýtt á Íslandi, perlur sem ekki þarf að strauja, einungis sprauta vatni á og þær...