Íbúar fullir vonleysi og örvæntingar

Flóttamannabúðir á Nauru. Íbúar í búðunum segja heilbrigðisþjónustu í búðunum …
Flóttamannabúðir á Nauru. Íbúar í búðunum segja heilbrigðisþjónustu í búðunum vera af skornum skammti og margir íbúar eiga orðið við geðrænan vanda að etja. AFP

Hjálparsamtökin Læknar án landamæra hvöttu áströlsk stjórnvöld í dag til þess að flytja samstundis alla hælisleitendur og flóttamenn á brott af Kyrrahafseyjunni Nauru. Segja samtökin þá sem þar dvelja vera fulla „vonleysis og örvæntingar“.

Það var í gær sem stjórnvöld á Nauru fyrirskipuðu hjálparsamtökunum að hætta að veita hælisleitendum læknisaðstoð, sem og þeim íbúum eyjunnar sem eiga við geðrænan vanda að etja.

Yfirvöld á Nauru hafa sætti harðri gagnrýni fyrir að samþykkja að hýsa flóttamannabúðir ástralskra stjórnvalda, en þeim hælisleitendum sem reyna að komast til Ástralíu er stundum haldið árum saman í búðunum.

Þeir sem þar dvelja segja heilbrigðisþjónustu í búðunum vera af skornum skammti og margir íbúar eiga orðið við geðrænan vanda að etja.

Paul McPhun, framkvæmdastjóri Lækna án landamæra í Ástralíu, sagði á fundi með fréttamönnum í Sydney að íbúar í búðunum séu fullir „vonleysis og örvæntingar“ og hvað geðheilbrigðismál varðar séu aðstæður „fullkomlega átakanlegar“.

„Það var áfall að komast að því að af þeim hælisleitendum sem við veittum læknisaðstoð höfðu að minnsta kosti 78 þeirra reynt að fremja sjálfsvíg, haft sjálfsvígshugsanir eða skaðað sjálfa sig — og þetta er varlega áætlað,“ sagði McPhun.

Þá þjáist mörg börn í búðunum og séu í hálfgerðu meðvitundarleysi – ófær um að borða, drekka eða tala.

Áströlsk stjórnvöld segja harða stefnu sína í innflytjendamálum vera nauðsynlega til að koma í veg fyrir að flóttamenn og smyglarar reyni að koma fólki sjóleiðina til Ástralíu.

Þá neita áströlsk yfirvöld flóttamönnum um að setjast að í Ástralíu, heldur reyna að finna þeim annað ríki til að dvelja í og tekur það ferli langan tíma.

Læknar án landamæra segja tæplega 900 hælisleitendur, þar af 115 börn, vera á Nauru í dag og hefur hópurinn allur dvalið þar í meira en 5 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert