Kanye gerði Trump nær orðlausan

Kanye West og Donald Trump í Hvíta húsinu í dag.
Kanye West og Donald Trump í Hvíta húsinu í dag. AFP

Rapparinn Kanye West hrósaði Donald Trump Bandaríkjaforseta í hástert er hann heimsótti Hvíta húsið í dag. West, sem var með derhúfu með áletruninni „Make America Great Again“, hélt tíu mínutna einræðu fyrir forsetann á skrifstofu hans, þar sem hann fór um víðan völl.

Kanye sagði meðal annars að það að klæðast derhúfu með slagorði forsetans léti honum líða eins og Superman – og að vinir hans hefðu reynt að hræða hann frá því að ganga með húfuna. „En þessi húfa veitir mér krafta, á einhvern hátt,“ sagði West.

BBC greinir frá því að er West lauk ótrúlegri einræðu sinni hafi Trump verið nánast orða vant og sagt: „Þetta var sko eitthvað.“ Þá svaraði West um hæl að orð hans hafi verið frá sálinni.

Við lok fundarins sagðist West svo elska forsetann og gekk bak við skrifborð hans og faðmaði hann. „Það er mjög indælt,“ svaraði Trump, en eftir opinn fund með fjölmiðlafólki snæddu Trump og West saman hádegismat.

West hélt langa einræðu, sem sjá má í myndbandinu hér …
West hélt langa einræðu, sem sjá má í myndbandinu hér að neðan. AFP

West hafnaði því í einræðu sinni að frægt fólk eins og hann sjálfur ættu að vera einróma er kæmi að stjórnmálaskoðunum, en hann er einn fárra stórstjarna vestanhafs sem hafa lýst yfir eindregnum stuðningi við Trump á opinberum vettvangi.


Kanye kom og heimsótti Bandaríkjaforseta í dag til þess að ræða glæpi í heimaborg sinni, Chicago. Hann bað forsetann um að náða leiðtoga glæpagengis þar í borg og einnig um að byggja „Trump-verksmiðjur“ í borginni.

Á fundinum, sem var þéttsetinn fjölmiðlafólki, var Trump spurður að því hvort Kanye West gæti mögulega boðið sig fram til embættis forseta í framtíðinni. Forsetinn svaraði því til að svo mætti vel vera.

Kanye segir að honum líði eins og ofurhetju þegar hann …
Kanye segir að honum líði eins og ofurhetju þegar hann klæðist derhúfu með slagorði forsetans, Make America Great Again. AFP

„Hættum að hafa áhyggjur af framtíðinni, allt sem við eigum er dagurinn í dag,“ sagði West þá og bætti við að Trump væri á „hetjuvegferð sinni núna“.

AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert