Myndu ekki hika við að gefa bókina út

William Nygaard, útgefandi bókar Salman Rushdie, Söngvar Satans, í Noregi.
William Nygaard, útgefandi bókar Salman Rushdie, Söngvar Satans, í Noregi. Wikipedia/Eirik Solheim

William Nygaard, útgefandi bókar Salman Rushdie, Söngvar Satans, í Noregi, var skotinn í þrígang og skilinn eftir til að deyja í úthverfi Óslóar á þessum degi fyrir 25 árum, 11. október 1993. Sonur hans, Mads Nygaard, sem stýrir útgáfufélaginu Aschehoug í dag, segir að það sé engin spurning um, „við myndum líka gefa bókina út í dag.“

Nú 25 árum síðar er fjallað um málið í New York Times og Aftenposten en Nygaard lifði árásina af. Frestur til þess að leggja fram ákæru í málinu rennur út á morgun og var ákæran loksins gefin út á þriðjudag. 

Það er niðurstaða yfirvalda, líkt og flestra Norðmanna, að árásin tengist útgáfu bókar Rushdie á norsku. Á sínum tíma vildu norsk yfirvöld lítið tjá sig þar um en staðan er önnur í dag.

„Við höfum enga ástæðu til þess að telja að nokkur önnur ástæða sé á bak við morðtilraunina en útgáfa bókarinnar Söngvar Satans,“ segir Ida Dahl Nilssen, talskona norsku norsku rannsóknarlögreglunar. Skotárásin er miklu meira en árás á einn mann, segir hún í samtali við NYT, hún er ofbeldisfull tilraun til þess að stöðva tjáningarfrelsi.

Yfirvöld hafa ekki upplýst um hvaða gögn liggja að baki ákærunni né heldur hverjir séu ákærðir. Ekki heldur hversu margir né þjóðerni þeirra og hvar þeir búa. 

Salman Rushdie er höfundur Söngva Satans.
Salman Rushdie er höfundur Söngva Satans. AFP

Í febrúar árið 1989 var Rushdie lýstur réttdræpur af Ayatollah Khomeini, erkiklerk í Íran, en bókin, sem er fjórða skáldsaga Rushdie, kom út haustið 1988. 

Árið 1991 var Ettore Capriolo, sem þýddi bókina yfir á ítölsku, stunginn í Mílanó af manni sem vildi fá Capriolo til að upplýsa, án árangurs, um íverustað Rushdie. Capriolo lifði árásina af en nokkrum dögum síðar var Hitoshi Igarashi,  sem þýddi bókina á japönsku, stunginn til bana í Tókýó.

Khomeini lést nokkrum mánuðum síðar án þess að aflétta dauðadómnum en árið 1998 lýstu stjórnvöld í Íran því yfir að það hafi verið gert. En trúaryfirvöld í Íran eru þar ekki á sama máli og hefur fé verið lagt til höfuðs Rushdie.

Í gær greindu norskir fjölmiðlar frá því, samkvæmt ónafngreindum heimildum, að tveir hið minnsta væru ákærðir fyrir árásina. Annar þeirra frá Íran og annar maður sem bjó áður í Noregi en er með tengsl við Líbanon.

Nygaard, sem er 75 ára gamall, er hættur störfum fyrir útgáfuna en er stjórnarformaður Noregsdeildar PEN, samtaka rithöfunda sem berjast fyrir tjáningarfrelsinu. Þegar NYT spurði hann í vikunni hvort hann sæi eftir útgáfu bókarinnar var svarið einfalt: Nei. Hann hafi ekki gefið út bókina til þess að ögra heldur til að mynda orðræðu og ef hann hefði tækifæri til þá myndi hann gefa bókina út að nýju í nafni tjáningarfrelsisins.

Árásin hafði gríðarleg áhrif á líf útgefandans, bæði líkamleg og andleg. Hann var marga mánuði á sjúkrahúsi. „Ég var mjög góður norskur skíðastökkvari og nokkuð góður útgefandi,“ segir Nygaard í viðtali við NYT. 

Á sínum tíma var árásin rannsökuð sem persónuleg árás fremur en trúar- eða stjórnmálaleg, samkvæmt bók og heimildarmynd rannsóknarblaðamannsins Isungset frá árinu 2008. Ári síðar tók lögreglan málið upp að nýju. 

Knut Olav Amas, sem er fyrrverandi aðstoðarmenningarmálaráðherra sem nú stýrir samtökum lögfræðinga sem berjast málfrelsi, segir að rannsókn lögreglu hafi verið algjört hneyksli og í raun ætti að rannsaka rannsóknina sjálfa. 

Aftenposten

New York Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert