Segja eftirlitsmyndavélarnar hafa bilað

Tyrkneska dagblaðið Sabah birti mynd af 15 mönnum, sem blaðið …
Tyrkneska dagblaðið Sabah birti mynd af 15 mönnum, sem blaðið segist hafa borið kennsl á sem sádi-arabíska leyniþjónustumenn sem lögregla skoði nú í tengslum við rannsókn sína. AFP

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti þrýsti í dag á stjórnvöld í Sádi-Arabíu að birta myndefni sem sýni að sádi-arabíski blaðamaðurinn Jamal Khashoggi hafi verið á lífi er hann yfirgaf sádi-arabísku ræðismannsskrifstofuna í Tyrklandi. Hét Erdogan því að Tyrkir myndu ekki „þegja“ um hin dularfullu örlög Khashoggis.

Khashoggi, sem var gagn­rýn­inn á stjórn­völd í heimalandi sínu, kom á sádi-ar­ab­ísku ræðismanns­skrif­stof­una í Tyrklandi 2. október til þess að verða sér úti um op­in­bera papp­íra þannig að hann gæti gengið að eiga tyrk­neska unn­ustu sína. Ekk­ert hef­ur spurst til hans síðan og seg­ir tyrk­neska lög­regl­an hann aldrei hafa komið þaðan út.

Fullyrðir tyrk­neska ör­ygg­is­lög­regl­an raunar að Khashoggi hafi verið myrt­ur, en stjórn­völd í Sádi-Ar­ab­íu segja slíkar ásakanir ekki eiga sér neina stoð í veruleikanum. Khashoggi hafi verið á lífi er hann yfirgaf skrifstofuna, en eftirlitsmyndavélar hafi hins vegar verið bilaðar þennan dag.

Sádi-arabíski blaðamaðurinn Jamal Khashoggi. Ekkert hefur til hans spurst frá …
Sádi-arabíski blaðamaðurinn Jamal Khashoggi. Ekkert hefur til hans spurst frá því hann fór á sádi-arabísku ræðismannsskrifstofuna í Tyrklandi til að ganga frá pappírum vegna væntanlegrar giftingar sinnar. AFP

Telur skýringarnar ekki fullnægjandi

AFP-fréttastofan segir Erdogan hins vegar ekki telja þær útskýringar fullnægjandi.

„Getur virkilega verið að engar eftirlitsmyndavélar séu á ræðismannsskrifstofunni, í sendiráði? Er það mögulegt að engar sádi-arabískar myndavélar hafi verið þar sem þetta atvik átti sér stað,“ hefur tyrkneska dagblaðið Hurriyet eftir forsetanum. Engir standi Sádi-Aröbum framar er kemur að eftirlitskerfum.

Erdogan hefur þó ekki gengið jafnlangt og ýmsir tyrkneskir embættismenn sem hafa látið hafa eftir sér ógnvekjandi lýsingar á meintu morði Khashoggis. Hafa þeir m.a. sagt lík hans hafa verið sundurlimað í sendiráðinu. Aðrir telja mögulegt að hann hafi verið numinn á brott, en ekki myrtur.

Tyrk­nesk sjón­varps­stöð birti í gær mynd­bands­upp­tök­ur úr eft­ir­lits­mynda­vél­um sem sagðar eru tengj­ast hvarf­i Khashoggis.

Upp­tök­urn­ar sem TRT-sjón­varps­stöðin birti sýn­ir bíla aka upp að sendi­ráðinu, m.a. svarta sendi­ferðabíla, sem tald­ir eru tengj­ast rann­sókn­inni. Þá sést einnig hóp­ur sádi-ar­ab­ískra karla koma til lands­ins um Ist­an­búl-flug­völl, þeir skrá sig síðan inn á hót­el og sjást svo aft­ur yf­ir­gefa landið með sádi-ar­ab­ískri leiguflug­vél sem beið þeirra á flug­braut­inni.

Mynd úr eftirlitsmyndavél sem tyrkneska lögreglan hefur birt sýnir hér …
Mynd úr eftirlitsmyndavél sem tyrkneska lögreglan hefur birt sýnir hér nokkra mannanna sem grunaðir eru um að tengjast hvarfi Khashoggis. AFP

Réttarmeinafræðingur meðal 15 menninganna

Þá seg­ir tyrk­neska dag­blaðið Sa­bah að það hafi borið kennsl á 15 liðsmenn leyniþjón­ust­unn­ar sem þátt hafi átt í hvarfi Khashogg­is og er tyrkneska öryggislögreglan nú sögð vera að skoða 15 manna hóp Sádi-Araba sem voru á ræðismannsskrifstofunni á sama tíma og Khashoggi og komið höfðu til Istanbúl með tveimur einkaþotum fyrr þann sama dag.

Tyrkneskir fjölmiðlar hafa kallað 15 menninganna „aftökuteymið“ og er einn mannanna sagður vera réttarmeinafræðingur.

BBC segir einn mannanna um tíma hafa starfað við sendiráð Sádi-Arabíu í London, en tyrkneska lögreglan vinnur nú að því að skoða upptökur úr 150 eftirlitsmyndavélum í tengslum við ransókn sína.

Mynd úr eftirlitsmyndavél við sádi-arabísku ræðismannsskrifstofuna er sögð sýna diplómatabíl …
Mynd úr eftirlitsmyndavél við sádi-arabísku ræðismannsskrifstofuna er sögð sýna diplómatabíl sem talinn er tengjast hvarfinu. AFP
mbl.is