Tekist á um aftökuaðferð

AFP

Yfirvöld í Tennessee ákváðu í gær að fresta aftöku fanga, á alþjóðlegum degi gegn dauðarefsingum, þar sem nota átti banvæna lyfjablöndu við aftökuna en hann krafðist þess að deyja í rafmagnsstólnum. 

Edmund Zagorski, sem er 63 ára gamall, var dæmdur til dauða árið 1984 eftir að hafa skorið tvo menn á háls sem höfðu svikið hann í fíkniefnaviðskiptum.

Zagorski fór fram á að vera tekinn af lífi í rafmagnsstólnum en fangelsismálayfirvöld í Tennessee höfnuðu beiðni hans. Lögmenn hans áfrýjuðu ákvörðuninni til alríkisdómstóls og kröfðust þess að skjólstæðingur þeirra yrði tekinn af lífi í rafmagnsstól en til stóð að taka hann af lífi í dag í Nashville. Niðurstaða dómstólsins var að fresta ætti aftökunni á meðan málið er til skoðunar.

Edmund Zagorski.
Edmund Zagorski. AFP

Í Tennessee getur fólk sem dæmt hefur verið til dauða fyrir 1999 krafist þess að velja á milli tveggja aftökuaðferða. En valið verður að liggja fyrir tveimur mánuðum fyrir fyrirhugaðan aftökudag.

Samkvæmt einum af lögmönnum Zagorski, Kelley Henry, var skjólstæðingur þeirra of seinn að leggja fram beiðnina þar sem ekki lá ljóst fyrir á þeim tíma hvort heimilt væri að nota þriggja lyfja blöndu, þar á meðal róandi lyf sem nefnist midazolam. 

Að sögn Henry var Zagorski neyddur til þess velja á milli tveggja ómannúðlegra aðferða og segir hún að stefna ríkisins í notkun á lyfjakokteil við aftökur vera ákveðna tegund pyntinga.

Lungu Zagorski munu fyllast af vökna og brenna að innan með sýru. Hann myndi lamast í fyrstu og síðan yrði hann brenndur lifandi með lyfjum innan frá, segir hún og bætir við að það taki allt að 10-18 mínútur að deyja á þennan hátt. 

Tennessee er eitt níu ríkja Bandaríkjanna sem notar enn rafmagnsstólinn við aftökur. Rafmagnsstólnum hefur aðeins verið beitt í 14 aftökum af tæplega 900 frá árinu 2000 og hefur aldrei verið notaður síðan árið 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert