36 farast í aurskriðu í Úganda

36 hið minnsta létust er á flæddi yfir bakka sína …
36 hið minnsta létust er á flæddi yfir bakka sína og aur og vatn bar með sér heilu þorpin. AFP

36 manns hið minnsta létust í aurskriðu sem féll í kjölfar úrhellisrigningar í austurhluta Úganda. Óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka, en björgunarsveitir eru nú á leið á staðinn, að því er BBC greinir frá.

Á í bænum Bukalasi, sem er í Elgon fjalllendinu í Bududa, flæddi yfir bakka sína og straumur leðju og vatns bar heilu þorpin á brott. Myndir sem birtar hafa verið sýna íbúa ná látnu fólki úr leðjunni og bera á brott.

Svæðið er fjalllent og með eldfjallajarðveg sem hentar vel fyrir landbúnaðarrækt. Það er þó einnig þéttbýlt og álag því mikið á ræktarland.

 Að sögn Rauða krossins í Úganda, þá hafa 36 lík fundist. Dagblaðið Daily Monitor hefur hins vegar eftir yfirvöldum í héraðinu að 40 hafi fundist látnir.

„Þegar vatnið flæddi niður þá tók það fjölda stórra steina með sér sem eyðilögðu heimili fólks,“ sagði Irene Nakasiita, talsmaður Rauða krossins í samtali við AFP-fréttastofuna.

Aurskriða sem féll einnig í Bududa héraði árið 2010 varð rúmlega 300 manns að bana.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert