Eyðileggingin ótrúleg

Mexico Beach.
Mexico Beach. AFP

Björgunarsveitarfólk er að störfum í þeim samfélögum sem urðu verst úti þegar fellibylurinn Mikael gekk á land í Flórída. Vitað er að sex létust í þremur ríkjum Bandaríkjanna en óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka þar sem margir fylgdu ekki fyrirskipunum stjórnvalda um rýmingu. 

AFP

Eyðileggingin er mest á Florida Panhandle-svæðinu, sem er í norðvesturhluta ríkisins. Í strandbæ við Mexíkóflóa, þar sem fellibylurinn kom að landi, féllu hús eins og spilaborgir, bátar þeyttust upp á land og á götum bæjarins liggja tré og rafmagnslínur eins og hráviði. 

Ríkisstjóri Flórída, Rick Scott, segir storminn hafa skilið eftir sig ótrúlega eyðileggingu og það sem sé í forgangi hjá yfirvöldum er að kanna hvort fórnarlömbin séu fleiri en nú er vitað. 

„Ég hef miklar áhyggjur af þeim íbúum sem ekki fluttu sig um set og ég vona að við höfum ekki misst of marga,“ sagði Scott í viðtali við ABC-sjónvarpsstöðina.

AFP

Samkvæmt upplýsingum frá bandaríska hernum taka um tvö þúsund þjóðvarðliðar þátt í björgunarstarfinu. Af þeim sex sem staðfest er að hafi látist eru fjórir íbúar Gadsden-sýslu í Flórída, einn í Georgíu og einn í Norður-Karólínu. 

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur heitið fórnarlömbum Mikaels aðstoð. Hann segir að hugur hans sé hjá þeim þúsundum sem hafa orðið fyrir eignartjóni og í mörgum tilvikum hafi eigur fólks hreinlega þurrkast út. Hann segir að stjórnvöld muni ekki una sér hvíldar fyrr en enduruppbyggingu er að fullu lokið.

Yfirvöld í Flórída segja að yfir 400 þúsund heimili og fyrirtæki séu án rafmagns í Flórída og Scott ríkisstjóri segir að tæplega 20 þúsund manns hafi verið fengnir til starfa til að koma rafmagni á að nýju. 

Mexico Beach, Flórída.
Mexico Beach, Flórída. AFP

Mikael var fjórða stigs fellibylur þegar hann kom að landi í Flórída síðdegis á miðvikudag og er þar með öflugasti stormur sem hefur komið að landi í Panhandle í meira en öld. 

Vindhraði Mikaels mældist 69 metrar á sekúndu þegar hann reið yfir Mexico Beach-strandbæinn. Björgunarsveitarmenn hafa nú skoðað skemmdirnar í þessum þúsund manna bæ og blasir eyðileggingin alls staðar við. Í raun vart hús sem hefur ekki orðið fyrir tjóni og mörg þeirra eru ónýt.

Síðan hefur Mikael lækkað í tign og er nú hitabeltisstormur á leið yfir Karólínu-ríkin tvö en þar eru íbúarnir enn að jafna sig eftir fellibylinn Florence í síðasta mánuði.

mbl.is
Skrifstofuhúsnæði Bolholti 4
Til leigu er skrifstofurými, alls um 110 fermetrar, í austurenda á 5. og efstu ...
Málningar- og viðhaldsvinna
Getum bætt við okkur inni- og útiverkefnum. Vönduð vinnubrögð og góð umgengni. T...
Fágætar vínilplötur í Kolaportinu!!
Mikið úrval af fágætum vínilplötum í Kolaportinu við gluggavegg miðjan sjávarmeg...
Íbúð til leigu.
4ra herb með bílskúr og sér bílastæði til leigu að Arahólum., 111 Rvík. Laus 1...