Hefur engin áhrif á vopnaviðskipti

AFP

Sendiherra Sádi-Arabíu í Bretlandi lýsti í viðtali við BBC í morgun yfir áhyggjum af örlögum blaðamannsins sem hvarf eftir að hafa farið á ræðismannsskrifstofu konungdæmisins í Istanbul í Tyrklandi í síðustu viku.

Sendiherrann, Mohammed bin Nawaf al Saud, segir að hann geti hins vegar ekki tjáð sig frekar um hvarf Jamal Khashoggi fyrr en að rannsókn lokinni. „Við höfum áhyggjur af samlanda okkar, Jamal,“ sagði prinsinn í viðtali við BBC í morgun. Hann segir rannsókn í gangi og það sé óviðeigandi að tjá sig um málið fyrr en niðurstaða hennar liggur fyrir. Hann vonast til þess að það verði fljótt.

Ekkert hefur spurst til Khashoggi, blaðamanns hjá Washington Post, frá því hann kom á ræðismannsskrifstofuna í Istanbul 2. október.

Tyrknesk yfirvöld telja að hann hafi verið myrtur á ræðismannsskrifstofunni af sádi-arabískum leyniþjónustumönnum en yfirvöld í Sádi-Arabíu þvertaka fyrir það.

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, segir að bandarískir sérfræðingar rannsaki nú hvarf  Khashoggi en ítrekar að sama hver niðurstaðan verði þá muni Bandaríkin ekki segja upp vopnaviðskiptasamningum við Sádi-Arabíu. Þetta kemur fram í Guardian í dag.

Samkvæmt heimildum Washington Post hefur ríkisstjórn Tyrklands greint bandarískum yfirvöldum frá því að hún hafi hljóð- og myndupptökur sem sýni og sanni að blaðamaðurinn var drepinn á skrifstofu ræðismannsins. 

Á upptökunum sjást öryggisverðir yfirbuga Khashoggi og síðan drepa hann og sundurlima. Hljóðupptökurnar þykja afar óhugnanlegar og þar komi vel fram hver örlög blaðamannsins urðu eftir komuna inn á skrifstofuna.

 

Jamal Khashoggi.
Jamal Khashoggi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert