Lenti á vegg í flugtaki

Ein af flugvélum Air India.
Ein af flugvélum Air India. AFP

Farþegaflugvél á leið frá indversku borginni Trichy til Dubai varð fyrir skemmdum þegar hún lenti á vegg sem umlykur flugvöllinn er hún var að taka á loft.

Air India IX 611 var með 130 farþega um borð og sex úr áhöfn þegar óhappið varð og var vélinni beint til indversku borgarinnar Mumbai þar sem hún lenti án vandræða, að sögn BBC.

Að sögn Air India hefur flugstjórunum tveimur, sem hafa samanlagt yfir 6.500 klukkutíma flugreynslu að baki, verið meinað að fljúga aftur á meðan rannsakað verður það sem gerðist.

Í yfirlýsingu frá flugfélaginu kemur fram að flugvélin hafi tekið á loft frá flugvellinum í Trichy í suðurhluta Indlands snemma í morgun þegar starfsmenn flugvallarins „tóku eftir því að flugvélin gæti hafa lent á vegg flugvallarins“.

Flugvélin varð fyrir nokkrum skemmdum.

„Flugstjórinn var látinn vita af því sem gerðist. Hann greindi frá því að öll kerfi flugvélarinnar störfuðu eðlilega.“

Nokkrar vikur eru síðan yfir 30 farþegar um borð í vél indverska flugfélagsins Jet Airwaves þurftu á læknisaðstoð að halda eftir að flugstjórarnir „gleymdu“ að kveikja á rofa sem stýrir loftþrýstingi í farþegarýminu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert