Greiddi líklega ekki skatta í fjölda ára

Jared Kushner er tengdasonur og einn af helstu ráðgjöfum Donalds …
Jared Kushner er tengdasonur og einn af helstu ráðgjöfum Donalds Trumps. AFP

Jared Kushner, tengdasonur og einn helsti ráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, greiddi líklega lítinn sem engan tekjuskatt á árabilinu 2009 til 2016, að því er fram kemur í grein New York Times, sem fréttastofa Reuters  fjallar um.

Samkvæmt New York Times bendir þó ekkert til þess að Kushner hafi brotið lög, en blaðið hefur undir höndum gögn sem voru gerð með hjálp Kushners af fjármálastofnun sem var að íhuga að veita Kushner lán.

Í umræddum gögnum kemur fram að skattskýrslur Kushners bendi til þess að hann hafi getað notað skattaívilnun sem veitir fasteignafjárfestum heimild til að draga hluta af rekstrarkostnaði fasteignanna frá skattstofni sínum.

Greiddi alla skatta sem honum bar að greiða

Peter Mirijanian, talstmaður lögmanns Kushners, sagði í samtali við Reuters á laugardag að hann myndi ekki svara ályktunum NYT, sem eru að hans sögn unnar upp úr ókláruðum gögnum sem eru fengin með ólöglegum hætti. 

Þá sagði hann einnig: „Kushner fylgdi ráðum fjölda lögmanna og bókara og greiddi alla skatta sem honum bar samkvæmt lögum og reglugerðum að greiða“.

Jared Kushner á göngu.
Jared Kushner á göngu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert