Mikið særð eftir árás kengúru

Kengúruárásir á borð við þessa eru mjög sjaldgæfar að sögn …
Kengúruárásir á borð við þessa eru mjög sjaldgæfar að sögn sérfróðra í Ástralíu. AFP

Áströlsk hjón hlutu mikla áverka þegar þau urðu að berjast við óða kengúru á heimili sínu í Queensland. Hjónin voru að gefa kengúrum að éta þar sem lítið hefur verið um æti á svæðinu sökum mikilla þurrka.

Hjónin Linda og Jim Smith, sem eru á sjötugsaldri, starfa við að sinna villtum dýrum. Fram kemur á vef BBC, að kengúran, sem var um 1,80 m á hæð hafi allt í einu ráðist á Jim. 

Hjónin og sonur þeirra urðu að verjast með kúst og skóflu. Sérfræðingar segja að árásir sem þessar séu afar sjaldgæfar. 

Dýrið lét sig hverfa þegar lögregla og sjúkralið kom á vettvang.

Fram kemur að atvikið hafi átt sér stað í Millmerran, sem er um það bil 80km suðvestur Toowoomba í Queensland.

Linda Smith greindi frá atburðarásinni í samtali við fjölmiðla á sjúkrahúsi þar sem þau hjónin lágu eftir atvikið. Hún segir að um 30 kengúrur hafi komið á hverju kvöldið að heimili þeirra til að fá að éta, en sem fyrr segir eru miklir þurrkar á svæðinu. 

Linda segir að eiginmaður hennar hafi verið að gefa kengúrunni að éta þegar hún snerist gegn honum. Hún segir að Jim hafi legið á jörðinni þegar hún hafi traðkað á honum. Linda sótti kúst en dýrið sló áhaldið úr höndunum á henni. Sonur hennar kom þá með skóflu og sló dýrið í höfuðið. 

Lunga Lindu féll saman í átökunum, rifbein brotnuðu auk þess sem hún hlaut áverka á höndum og fótum. Hún gekkst undir aðgerð á sjúkrahúsinu í dag. Jim hlaut marga skurði en sonur þeirra, sem er um fertugt, hlaut minniháttar áverka. 

Stephen Jones, yfirmaður neyðarþjónustunnar í Queensland, segist ekki hafa séð annað eins á 30 ára ferli. Hann telur að ef Linda hefði ekki komið eiginmanni sínum til aðstoðar, þá hefði hann getað dáið. 

Linda Smith, sem hefur starfað undanfarin 15 ár við að sjá um dýr, segist ekki vilja að dýrið verði elt uppi og fellt. „Ég elska dýr.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert