Sádakonungur hringdi í Erdogan

Salman bin Abdulaziz Sádakonungur hringdi í Erdogan Tyrklandsforseta í dag …
Salman bin Abdulaziz Sádakonungur hringdi í Erdogan Tyrklandsforseta í dag og ræddi hvarf Jamal Khashoggi. AFP

Recep Tayyip Erdogan forseti Tyrklands og Salman Sádakonungur ræddu mál blaðamannsins Jamal Khashoggi símleiðis í dag. Samkvæmt heimildarmanni nákomnum Tyrklandsforseta ræddu þeir um að „varpa ljósi“ á mál Khashoggi og mikilvægi þess að stofna sameiginlegan aðgerðahóp Tyrkja og Sádi-Araba í tengslum við rannsóknina.

Sádakonungur hringdi í Erdogan til að þakka honum fyrir að taka vel í bón Sáda um að stofna téðan aðgerðahóp, þó að fátt liggi opinberlega fyrir um það hvernig hann muni starfa.

Salman lagði áherslu á mikilvægi sambands ríkjanna tveggja og sagði að enginn ætti að geta „grafið undan styrk sambandsins“, samkvæmt fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneyti Tyrkja.

Tyrkneskir embættismenn hafa sagt fjölmiðlum að þeir telji að Khashoggi hafi verið myrtur er hann heimsótti ræðismannsskrifstofu Sáda í Istanbúl 2. október síðastliðinn. Því hafa Sádar ákaft neitað.

Tyrklandsforseti hefur verið varkár í yfirlýsingum sínum vegna málsins, hann hefur lýst yfir nokkrum áhyggjum, en ekki ásakað stjórnvöld í Riyadh um aðkomu að málinu með eindregnum hætti, enn sem komið er.

Recep Tayyip Erdogan forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan forseti Tyrklands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert