Stjórnarmyndun er ekki í augsýn

Ulf Kristersson tókst ekki að mynda ríkisstjórn í Svíþjóð og …
Ulf Kristersson tókst ekki að mynda ríkisstjórn í Svíþjóð og segir ábyrgðina á ferlinu nú úr sínum höndum. AFP

„Ég gerði hvað ég gat í þessari umferð, en nú er það ekki lengur ég sem ber ábyrgð á þessu ferli,“ sagði Ulf Kristersson, formaður Moderatarna í samtali við fjölmiðla fyrr í dag, eftir að ljóst varð að hann myndi afsala sér umboði til þess að mynda ríkisstjórn í Svíþjóð.

Fimm vikur eru liðnar frá sænsku þingkosningunum, en enn virðist nokkuð í að sænskir stjórnmálamenn geti myndað starfhæfa ríkisstjórn.

Eins og greint var frá í gær hér á mbl.is sigldu tilraunir Kristersson til þess að mynda minnihlutastjórn hægribandalagsins, Alliansen, í strand, þar sem tveir flokkanna fjögurra sem mynda bandalagið vilja að leitað verði samstarfs yfir á vinstri væng stjórnmálanna.

Þeim þótti hætta á að minnihlutastjórn hægribandalagsins yrði of háð Svíþjóðardemókrötum, róttækum þjóðernisflokki sem hefur á undanförnum árum verið gagnrýndur fyrir þá útlendingaandúð og þjóðernispopúlisma sem felst í málflutningi flokksins.

Stóru flokkarnir þurfi að klifra upp úr sandkassanum

Svíþjóðardemókratarnir fengu 17,6% atkvæða í þingkosningunum, en enginn annar sænsku stjórnmálaflokkur vill vinna með honum eða mynda ríkisstjórn sem yrði háð stuðningi flokksins.

Ris Svíþjóðardemókrata, sem varð þó ekki jafn mikið og kannanir bentu til fyrir kosningar, þýddi að hvorug blokkin í sænskum stjórnmálum hlaut hreinan þingmeirihluta og því var viðbúið að það verkefni að mynda nýja ríkisstjórn yrði snúið.

Jimme Åkesson segir að nú þurfi stóru flokkarnir að rífa …
Jimme Åkesson segir að nú þurfi stóru flokkarnir að rífa sig upp úr sandkassanum og koma til viðræðna við Svíþjóðardemókrata. AFP

Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókratanna, sagði í dag að í ljósi misheppnaðrar tilraunar Kristersson væri ljóst að „stóru flokkarnir þyrftu að klifra upp úr sandkassanum“ og tala við sig um ríkisstjórnarmyndun. Ellegar væri staðan sú að boða þyrfti til nýrra kosninga.

Löfven fær líklega tækifæri

Talið er líklegast að Stefan Löfven, starfandi forsætisráðherra og formaður Sósíaldemókrata, sem eru stærsti flokkurinn á þingi, muni nú fá tækifæri til þess að reyna að sannfæra flokka innan hægribandalagsins um að mynda stjórn yfir miðjuna undir hans stjórn.

Tilraunir hans til þess að fá flokka hægra megin við miðju til samstarfs við sig eftir kosningar gengu ekki eftir og sænska þingið samþykkti í lok september tillögu þess efnis að hann skyldi víkja úr embætti forsætisráðherra.

Í dag funda leiðtogar sænsku stjórnmálaflokkanna með Anders Norlén þingforseta um næstu skref, en Norlén mun á morgun tilkynna hver fái næsta tækifæri til þess að mynda stjórn. Sem áður segir telja flestir stjórnmálaskýrendur að nú fái Löfven að spreyta sig við að mynda stjórn yfir miðju.

Stefan Löfven forsætisráðherra og Anders Norlén, þingforseti takast í hendur. …
Stefan Löfven forsætisráðherra og Anders Norlén, þingforseti takast í hendur. Líklegt þykir að Norlén veiti Löfven nú umboð til að reyna að mynda nýja stjórn. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert