Veiðimaður skaut hjólreiðamann til bana

Atvikið átti sér stað skammt frá bænum Les Gets í …
Atvikið átti sér stað skammt frá bænum Les Gets í Frakklandi þar sem hjólreiðamaðurinn bjó. Kort/Google

Franskur veiðimaður skaut breskan karlmann á fertugsaldri til bana þar sem hann var á ferð á fjallahjóli í skóglendi í frönsku Ölpunum. Atvikið átti sér stað í gærkvöldi. 

Ekki er búið að birta nafn mannsins sem lést, en hann var 34 ára gamall veitingahúsaeigandi. Fram kemur að hann hafi búið í nokkur ár í smábænum Les Gets.

Nokkrir veiðimenn voru á ferðinni á sömu slóðum í skóglendi skammt frá Montriond að sögn saksóknara. 

Þeir segja að hjólreiðamaðurinn hafi sést vel og verið á þekktum fjallahjólastíg þegar 22 ára gamall veiðimaður skaut hann. Veiðimaðurinn var fluttur á sjúkrahús í áfalli, að því er segir í frétt AFP-fréttastofunnar.

Lögreglan rannsakar málið sem manndráp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert